138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

störf þingsins.

[13:35]
Horfa

Steinunn Valdís Óskarsdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir að gefa mér tækifæri til að ræða málefni Reykjavíkurflugvallar í þingsal. Ég held að hv. þingmanni sé það ljóst eins og þeirri sem hér stendur að um málefni Reykjavíkurflugvallar eru mjög skiptar skoðanir í öllum flokkum (BJJ: Nei, nei, nei.) og þvert á alla flokka. Af því að menn draga það sérstaklega fram að það séu skiptar skoðanir um þetta innan Samfylkingarinnar þá er það rétt, það eru skiptar skoðanir innan Samfylkingarinnar. En ég vil minna hv. þingmann á að það eru líka afar skiptar skoðanir innan Framsóknarflokksins, að ég tali ekki um Sjálfstæðisflokkinn.

Það er kannski ágætt að benda á að í þeim fréttum sem borist hafa núna á undanförnum tveimur dögum, fréttum sem við höfum aðallega lesið í Fréttablaðinu, kemur fram að það er greinilega mikil óeining innan Sjálfstæðisflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. (Gripið fram í.) Forseti (Gripið fram í.) borgarstjórnar Reykjavíkur segir koma til greina að byggja nýja flugstöð (Gripið fram í.) þar sem núverandi flugstöð er, á meðan formaður borgarráðs, Óskar Bergsson borgarfulltrúi, (Gripið fram í.) segir eitthvað allt annað. Formaður borgarráðs, sem er í Framsóknarflokknum, sagði það klárlega í dag, hv. þingmaður — ég hvet hv. þingmann til að lesa þá frétt — að aðalskipulag Reykjavíkurborgar standi þangað til annað kemur í ljós. Og hvað þýðir það? Það þýðir að flugvöllurinn á að hopa úr Vatnsmýrinni í áföngum, það er stefna Framsóknarflokksins í borgarstjórn Reykjavíkur. (BJJ: Nei, nei, nei.) Hv. þingmaður er með fyrirspurn sinni búinn að draga glöggt fram (Gripið fram í.) þann ágreining (Gripið fram í.) sem er milli Framsóknarflokksins í borginni (Gripið fram í.) og Framsóknarflokksins á landsvísu. (Gripið fram í.) Og af því að hv. þm. Guðlaugur Þór Þórðarson, fyrrum kollegi minn úr borgarstjórn, kallar fram í, get ég endurtekið það sem ég sagði í upphafi. Það eru skiptar skoðanir innan Samfylkingarinnar (Forseti hringir.) á sama hátt og það eru skiptar skoðanir innan Sjálfstæðisflokksins, sem ég þarf ekki að minna hv. þingmann á. (GÞÞ: Þetta eru ekki sömu flokkarnir, það er alveg á hreinu.)