138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

þýðingarvinna.

177. mál
[14:16]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Jónína Rós Guðmundsdóttir) (Sf):

Virðulegi forseti. Mig langar til að ræða við hæstv. utanríkisráðherra um þýðingarvinnu á vegum ráðuneytis hans. Það liggur fyrir að það ráðuneyti sem sér um samskipti ríkisins við útlönd hlýtur að þurfa að hafa öfluga þýðingarþjónustu á sínum snærum og mig langar til þess að forvitnast svolítið um hvernig þeirri vinnu er háttað, að hve miklu leyti hún er innan ráðuneytisins og að hve miklu leyti utan. Mig langar líka til að fá að vita hvort einhverjir einkaaðilar eru í verktöku í þessari vinnu og svo kannski það sem ég hef í raun og veru sérstaklega mikinn áhuga á er hversu mikið þessari starfsemi er dreift um landið.

Það verður að segjast eins og er með staðsetningu starfa að á vegum hins opinbera liggur það svolítið beint við, virðist vera, að þau störf séu í Reykjavík þó að mér finnist að við eigum að leggja verulega áherslu á að því sé breytt, en sem sagt önnur staðsetning er ekki eins sjálfsögð. Mikið hefur verið talað um það í hátíðaræðum að störf eigi að vera án staðsetningar. Því megum við ekki gleyma og við þurfum að brýna okkur sjálf til dáða í því samhengi.

Auðvitað eru öll störf góð, bæði í höfuðborginni og á landsbyggðinni, en í raun og veru þarf landsbyggðin sérstaklega á störfum að halda fyrir okkar góða fólk sem vill gjarnan koma aftur eftir að hafa farið í nám og hefur aflað sér ákveðinnar menntunar og færni. Þýðingarstörf eru náttúrlega dæmigerð góð störf í þá veru.

Ég var svo heppin að ég var á ferð á Ísafirði um daginn og kom þar inn í skemmtilegt herbergi sem var merkt utanríkisráðuneyti – þýðingarver og þar unnu tvær ferskar og fínar konur við þýðingar fyrir utanríkisráðuneytið. Eitt skrifborð var autt því að gert var ráð fyrir að þriðji aðilinn mundi bætast við. Ég hef fylgst dálítið með því og veit að aðilar á Seyðisfirði vilja gjarnan taka að sér svona þýðingarverkefni og sjálfsagt miklu fleiri.

Ég geri frekar ráð fyrir því að í því ferli sem við erum í núna í sambandi við umsókn um aðild að Evrópusambandinu muni þessum störfum jafnvel frekar fjölga og mig langar til að spyrja hæstv. utanríkisráðherra hvort það sé tilfellið að þeim sé að fjölga og hvernig hann hugsi sér það þá. Á hvaða formi verður fjölgunin? Vill hann að sett verði upp einhver ákveðin þýðingarver? Geta einkaaðilar sótt um það, eru það sveitarfélög? Hvernig verða vinnureglurnar um það til þess að við getum tryggt að aðilar utan Reykjavíkur geti unnið þessi störf?