138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

flugsamgöngur til Vestmannaeyja.

145. mál
[14:32]
Horfa

Fyrirspyrjandi (Unnur Brá Konráðsdóttir) (S):

Hæstv. forseti. Ég leyfi mér að varpa fram spurningu til hæstv. samgönguráðherra um það hvort uppi séu áform um breytingar á aðkomu ríkisins að flugsamgöngum til Vestmannaeyja vegna tilkomu Landeyjahafnar. Nú er það svo, frú forseti, að lyft hefur verið grettistaki varðandi samgöngur til Eyja undanfarin ár. Þáverandi samgönguráðherra, Sturla Böðvarsson, lagði mikla áherslu á að móta framtíðarsýn varðandi samgöngur til Eyja og lét m.a. vinna skýrslu sem leit dagsins ljós árið 2006 og varð grundvöllur þeirrar sýnar og þeirrar stefnu sem unnið hefur verið eftir hingað til. Þannig var ákveðið að ráðast í gerð Landeyjahafnar og jafnframt var tryggt að samningur við Flugfélag Íslands varð að veruleika, en var þar boðið upp á og skrifað undir að veitt yrði þjónusta í Vestmannaeyjum sem mundi hæfa þeirri öflugu byggð.

Frú forseti. Ferðaþjónusta er sú grein sem við treystum mjög á í dag að eflist til að skapa auknar gjaldeyristekjur. Nú sitja ferðaþjónustuaðilar í Vestmannaeyjum við það að reyna að selja ferðir til Eyja og þeir geta ekki svarað því hvort og hvernig flugumferð verður háttað, hvað þá hvert verðið verður. Jafnframt liggur hvorki fyrir áætlun né gjaldskrá fyrir ferðir ferjunnar í hinni nýju Landeyjahöfn. Það er því frekar erfitt að átta sig á hvernig samgöngum til Vestmannaeyja verður háttað og er þetta væntanlega kærkomið tækifæri fyrir samgönguráðherra til að upplýsa okkur um það.

Flugfarþegum um flugvöllinn í Eyjum hefur fjölgað og þar spila saman þessi fjárfesting ríkisins í innanlandsfluginu, markaðssetning bæjarins og jafnframt hin góða þjónusta Flugfélagsins. Þetta er mikilvægt og verðmætt samspil sem gæta þarf að tapist ekki. Rétt er að hafa í huga að um 25 manns hafa vinnu sína af flugi til Eyja samkvæmt upplýsingum frá yfirvöldum í Vestmannaeyjabæ, en þess má geta að samkvæmt útreikningum bæjarstjórans í Vestmannaeyjum svarar það til þess að um 1.170 manns mundu missa vinnuna á einu bretti á höfuðborgarsvæðinu.

Þá vil ég jafnframt vekja athygli á því að ársþing Samtaka sunnlenskra sveitarfélaga ályktaði um málið á ársþingi sínu núna í október og, með leyfi forseta, kom þar fram: „... að ekki verði horfið frá þeirri stefnu samgönguyfirvalda að tryggja flug milli Reykjavíkur og Vestmannaeyja. Þörf eyjasamfélags eins og Vestmannaeyja fyrir traustar flugsamgöngur verður áfram mikil þótt samgöngur á sjó verði bættar.“

Frú forseti. Ég hef mikla trú á því að straumur ferðamanna, bæði innlendra sem erlendra, til Vestmannaeyja og að sjálfsögðu hinir fjölmörgu sem búa í Eyjum, eigi eftir að nýta sér flugið þrátt fyrir tilkomu Landeyjahafnar. Ég hef þá trú að sú breyting gefi mikil sóknarfæri sem við þurfum að grípa og nýta okkur. Mig langar að vita hvort ráðherrann sé sammála mér um að það séu sóknarfæri samsvarandi Landeyjahöfninni fyrir flugið og draumurinn er að sjálfsögðu sá að flugið til Eyja verði sjálfbært. En spurningin er (Forseti hringir.) hvort uppi séu áform um breytingar á aðkomu ríkisins á flugsamgöngum, því að ekki verður búið við óvissu mikið lengur.