138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

sjóvarnir við Vík.

149. mál
[15:00]
Horfa

samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra (Kristján L. Möller) (Sf):

Virðulegi forseti. Ég þakka þeim þingmönnum sem um þetta mál hafa fjallað hér, þetta mikilvæga mál sem er sjóvörn við Vík í Mýrdal. Hér er samhljómur um það að allir gera sér grein fyrir því hve þetta er mikilvægt mál og hve þarna getur verið mikil hætta á ferðum. Það hefur ekkert verið gert í þessu mörg undanfarin ár og nú er einfaldlega komin ögurstund. Gallinn er sá að það er á sama tíma og þjóðin er næstum því á hausnum, það vantar peninga í ótal málaflokka, gallinn er sá. Vil ég minna á það, af því að hér er verið að ræða þetta, að okkur vantar líka eitthvað svolítið af peningum til að klára Landeyjahöfn sem er meginviðfangsefnið að klára í siglingamálum.

Við þurfum áfram að vinna að þessu og ég þakka góða hvatningu frá hv. þingmönnum til þess. En ég vil bara segja að við munum vinna að þessu áfram og reyna að finna á því flöt hvernig hægt er að fá peninga í þetta verkefni og sjá hve það verður mikið. Auðvitað vitum við líka eins og ég sagði áðan að hér er talað um 230 milljónir og eitthvað eigum við til, að vonandi væri það þannig ef við kæmumst í það, að sennilega er aldrei eins gott að bjóða út svona verk og einmitt núna þar sem vantar verkefni til verktaka og við mundum örugglega fá góð tilboð.

Enn og aftur kærar þakkir, virðulegi forseti, fyrir þessa umræðu og að taka þetta mál upp vegna þess að það er nauðsynlegt að þingheimur geri sér grein fyrir alvarleika málsins.