138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

námslán til skólagjalda á háskólastigi.

223. mál
[18:36]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Ég þakka hv. þingmönnum sem hafa tekið til máls. Ég held að það sé mjög mikilvægt að við ræðum þessi mál líka. Ég veit að þau eiga eftir að koma hér væntanlega til umræðu á næstu mánuðum þegar við skoðum háskólakerfið betur og rýnum í það.

Ég ítreka það sem ég sagði fyrr, það þarf að skoða þessi mál í heildarsamhengi svo við náum fram þessu gagnsæi sem ég nefndi og að hver og einn geti verið sáttur með þær fjárveitingar sem hann hefur og þá grunna sem þær koma úr.

Ég vil líka ítreka það, af því að hér var rætt um samkeppni, ég held að háskólaumhverfið einkennist af samkeppni, ekki bara samkeppni um nemendur heldur samkeppni um árangur. Ég þreytist ekki á að ítreka það að mikilvægasta verkefni okkar núna (ÞKG: Eins gott.) er að standast samkeppnina við alþjóðavettvanginn, einmitt þegar draga þarf saman í íslenska háskólaumhverfinu og þetta er ekki lítill niðurskurður sem er lagður til núna í fjárlögum, um 8,5%. Þá skiptir máli að við horfum inn á við, gerum það sem við getum til að taka höndum saman, og þá er ég ekkert að gera lítið úr því að skólarnir starfi áfram út frá sínum forsendum en að þeir taki höndum saman og standist þær þrengingar sem núna eru. Ég held að það sé alveg gríðarlega mikilvægt til að komast í gegnum það að við reynum að ná fram því sem ég hef kosið að kalla samstarf eða samlegð í því sem þar er hægt. Við þurfum líka að horfa á það að við erum með sjö háskóla í litlu landi og það skiptir máli að þeir reyni að starfa saman og ná þannig að standast þær þrengingar sem nú eru.

Ég hef ekki áhyggjur af því að það dragi úr samkeppni því að mín tilfinning fyrir íslenska háskólaumhverfinu er sú að þar sé mjög heilbrigð samkeppni, t.d. á sviði rannsókna og vísinda um besta árangurinn.