138. löggjafarþing — 31. fundur,  25. nóv. 2009.

héraðsdómarar og rekstur dómstóla.

185. mál
[18:46]
Horfa

Anna Pála Sverrisdóttir (Sf):

Frú forseti. Ég vil gera stutta athugasemd við það hvernig hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson setur fyrirspurnina upp, af því mér heyrðist hann hér áðan vera að saka hæstv. dómsmálaráðherra um skort á samráði. Þá vil ég benda á að skortur á samráði er alls ekki það sama og að ekki sé farið eftir öllum ábendingum eða sjónarmiðum sem fram koma í því ferli sem ráðherra hefur skilmerkilega rakið að fylgt var. Þetta hefur verið góð vinna sem dómsmálaráðuneytið hefur unnið í allri fjárlagagerðinni að þessu sinni.

Að lokum vil ég gera athugasemd við það að svo margar fyrirspurnir komi fram núna um mál sem er til meðferðar hjá allsherjarnefnd, þetta er skipan héraðsdómstólanna. Þetta er í rauninni sett upp hér eins og umræða eitt og hálft um það mál. Maður bara veltir fyrir sér: Eru að koma sveitarstjórnarkosningar og hefur það einhver áhrif á þessa umræðu?