138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

tilhögun þingfundar.

[10:49]
Horfa

Ragnheiður E. Árnadóttir (S) (um atkvæðagreiðslu):

Virðulegi forseti. Ég tek undir með hv. þm. Gunnari Braga Sveinssyni að það verður ekki friður um þetta mál. Við sjáum að meðan þessi vinnubrögð eru viðhöfð verður ekki friður. Við höfum beðið um að gert verði hlé á umræðunni, að málið verði sent aftur til hv. fjárlaganefndar þar sem við getum fengið gesti til að ræða ýmis atriði sem upp hafa komið frá því að þessi umræða byrjaði. Á meðan nefndin er að störfum getum við tekið öll hin málin, allar þessar ömurlegu skattbreytingar sem ríkisstjórnin vill keyra í gegn. Leyfum þeim að gera það og bera ábyrgð á því. En ég vil gera athugasemd við orð hæstv. utanríkisráðherra þegar hann sagði að hann væri búinn að tala fyrir hönd sína og sinna vandamanna, vegna þess að það var einmitt vandamaður hans, fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, sem mátti ekki koma á fund fjárlaganefndar. Ég spyr hæstv. utanríkisráðherra: Talar hann fyrir hönd fyrrverandi hæstv. utanríkisráðherra? Ég vil líka fá að kalla saman nefndina til þess (Forseti hringir.) að ræða af hverju hæstv. forsætisráðherra lúrði á bréfi (Forseti hringir.) frá forsætisráðherra Bretlands í 12 daga á meðan umræðan fór fram. Það er hneyksli.