138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:41]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S):

Hæstv. forseti. Ég ákvað að blanda mér í þessa umræðu í dag og vil þakka hv. þm. Ólöfu Nordal fyrir að hefja þá umræðu sem hér hefur farið fram varðandi þessi makalausu bréf sem komust í fréttirnar í gær.

Okkur þingmönnum þjóðarinnar stóð til boða að sitja þjóðfund ásamt fullt af öðrum Íslendingum og ræða þar um hvaða gildi það eru sem við ætlum að byggja samfélag okkar á. Sá fundur komst að þeirri niðurstöðu að heiðarleiki væri það gildi sem helst skyldi halda í heiðri á komandi árum. Ég dreg í efa að hæstv. forsætisráðherra hafi hlustað á þessa niðurstöðu þar sem mér þykir ekki heiðarlegt að hafa ekki minnst á að komið hafi svar frá forsætisráðherra Breta í þinginu. Við höfum margoft talað um þetta sinnuleysi breska forsætisráðherrans að svara ekki bréfum íslenska forsætisráðherrans. Hefði hæstv. forsætisráðherra setið undir ræðunum hefði hún t.d. heyrt um kl. 10 á þriðjudagskvöldið þegar hv. þm. Sigurður Ingi Jóhannsson stóð í þessum stól og spurði hvers vegna ekki væri búið að svara bréfi íslenska forsætisráðherrans. Hæstv. forsætisráðherra hefði verið í lófa lagið að koma hér upp og upplýsa þingmenn um þetta. Það er margoft búið að vísa til þess úr þessum stól og þetta sannar enn og aftur mikilvægi þess að hæstv. forsætisráðherra sé hér og fylgist með því sem fram fer í þingsalnum. Hvers vegna var þessi leið farin? Þetta þykir mér ekki heiðarlegt af hæstv. forsætisráðherra og ég hef miklar efasemdir um að ríkisstjórnin hafi getu og burði til að sinna örlitlum samskiptum. Ég fór yfir þessar efasemdir mínar í ræðu sem ég hélt milli kl. 11 og 12 á þriðjudagskvöldið og þessi vinnubrögð ýta því miður enn frekar undir þessar áhyggjur mínar. Ég lýsi þeim enn og aftur (Forseti hringir.) og tel mjög mikilvægt að við fjöllum vel og ítarlega um þetta mál í þingsölum í dag.