138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

Icesave og bréf frá Gordon Brown -- orð forsætisráðherra um virkjanir.

[11:55]
Horfa

Guðlaugur Þór Þórðarson (S):

Virðulegi forseti. Ég held að það sé rétt hjá virðulegum forseta að hv. þingmenn eiga að sýna stillingu.

Tengsl breska verkamannaflokksins og Samfylkingarinnar hafa verið nokkuð til umræðu hér. Það er einn hæstv. ráðherra meðlimur í breska verkamannaflokknum og borgar þar árgjöld, ef eitthvað er að marka hans eigin orð, og ég held að það sé einsdæmi í íslenskri stjórnmálasögu að Samfylkingin hélt sérstakt partí, fögnuð, þegar breski verkamannaflokkurinn vann sigur í kosningunum á sínum tíma.

Ég held, virðulegi forseti, að ef hv. þm. Guðbjarti Hannessyni er jafnmikið í mun að segja hug sinn, jafnreiður og hann var hér vegna þess að verið var að brigsla honum um einhverja hluti, um þessa snautlegu afgreiðslu sem við fengum frá þessum svokallaða forsætisráðherra Breta, Gordon Brown, er nú tækifæri fyrir hv. þingmann til þess. Nú er tækifæri fyrir íslenska þingið að bregðast við þegar þessi stjórnmálamaður, sem svo sannarlega reyndi að nota Ísland sem stökkpall til eigin pólitískra vinsælda, gerir enn og aftur lítið úr íslenskri þjóð.

Ég skora á hv. þm. Guðbjart Hannesson að vera fremstur meðal jafningja, okkar þingmanna, og sýna þessum manni svo ekki verði um villst að við látum ekki koma svona fram við okkur. Þó að það væri ekki nema út af þessu fráleita, móðgandi bréfi ættum við að segja: Þessari umræðu er hér með lokið í bili. (Gripið fram í: Heyr, heyr.) (Gripið fram í.) Íslensk þjóð lætur ekki koma svona fram við sig.

Nú er tækifærið, hv. þm. Guðbjartur Hannesson, að láta að þér kveða. Þú hefur tækifærið.

(Forseti (SVÓ): Forseti vill áminna hv. þingmenn að ávarpa ekki hver annan beint.)