138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:53]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hvað er það sem ætti ekki að geta gerst? Hér koma ráðherrarnir upp hver á fætur öðrum, berja sér á brjóst og segja að nú sé þetta allt að koma, við séum að rétta úr kútnum, það þurfi að loka minna fjárlagagati en ætlað var og eitthvað slíkt. Samt erum við ekki farin að fá þessi lán, lánin sem allt gekk út á.

Ríkisstjórnarflokkarnir hafa rekið áróður fyrir þessu Icesave-máli í sumar og í haust vegna þess að annars gerist eitthvað — það er Evrópusambandið, það er hitt og þetta sem brestur á, dagsetningar eru nefndar og guð má vita hvað. En það gerist aldrei neitt því að það er ekkert eftir, nema hugsanlega það að komast ekki í þetta blessaða Evrópusamband.

Áhættan af því að ganga ekki frá þessu núna er því engin, það er engin ástæða til þess að samþykkja þetta. Það hefur m.a.s. komið fram hjá stjórnarþingmönnum.

Hv. þingmaður talaði hér um að það ríkti óvissa um lykilþætti, óvissa um hagvöxt og óvissa um endurheimtur Landsbankans og eitthvað slíkt. Ég spyr: Er ásættanlegt að gera slíkan samning meðan (Gripið fram í.) öll þessi óvissa ríkir um hann?