138. löggjafarþing — 32. fundur,  26. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:23]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (um fundarstjórn):

Virðulegi forseti. Ég vil þakka hæstv. forseta sérstaklega fyrir sköruglega fundarstjórn og einstaklega gott samband við formann nefnda þingsins. Það er gott að sjá þetta.

Ég verð hins vegar að taka undir með þeim þingmönnum sem lýsa yfir miklum áhyggjum af því að Evrópuþingið sé farið að þrýsta á okkur sem stöndum hér á þjóðþingi Íslendinga, í sjálfstæðu ríki, og fjöllum um þingmál, að Evrópuþingið sé að reyna að hafa áhrif á störf okkar. Ég tel rétt að við sendum þessu fólki úti í Evrópu skilaboð héðan. Þess vegna verður að gera hlé á þessum fundi og kalla utanríkismálanefnd saman til að fara yfir þessa ályktun og senda boltann til baka. Það er ekki Evrópuþingið sem stjórnar hér á landi. Það erum við, Íslendingar, og því skulum við aldrei gleyma, sama hvað Samfylkinguna langar til að gera í því máli.