138. löggjafarþing — 32. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:00]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Mig langar til að reyna að setja þetta mál í samhengi við eitthvað sem við þingmenn þekkjum mjög vel úr okkar daglegu störfum. Nú munu á næstu dögum örugglega koma hingað til umræðu í þinginu hugmyndir og tillögur hæstv. ríkisstjórnar um breytingar á gjaldtökuheimildum. Þær gjaldtökuheimildir eru auðvitað mjög takmarkaðar miðað við það sem við erum hér að ræða um. Hér er í rauninni verið að selja ákveðið sjálfdæmi um það hvernig þessum málum verður lokið og enginn veit í raun og veru hvaða heimildir hæstv. ríkisstjórn er að fá frá Alþingi um að ljúka þessum málum. Þess vegna hlýtur að verða látið á þetta reyna með einhverjum hætti. Mér er auðvitað ekki ljóst með hvaða hætti það getur gerst, hvernig það mál getur borið að, hver það verður sem lætur á þetta mál reyna en í ljósi þess að Alþingi túlkar þessar heimildir til að afsala sér fjárheimildum, til að afsala sér heimildunum til gjaldtöku mjög þröngt eðlilega, þá hlýtur þetta mál að koma til þar til bærs úrskurðaraðila.