138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:32]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Það hefði verið áhugavert úr því að hv. þm. Guðbjartur Hannesson kom í ræðustól og nefndi ræðu hv. þm. Tryggva Þórs Herbertssonar að hann hefði reynt að gera grein fyrir afstöðu sinni til þeirra mála sem þar komu fram. Gott og ég vel, ég skil að það er erfitt þegar kemur að fundarstjórn forseta en þá hefði verið betra að þingmaðurinn hlustaði ekki bara á ræðurnar heldur tæki þátt í umræðunum.

Ég vil nota þetta tækifæri og enn á ný árétta að það tilboð sem stjórnarandstaðan hefur gert ríkisstjórninni varðandi málsmeðferð í þinginu er ekki að taka Icesave-málið af dagskrá, láta það hverfa og hætta að tala um það. Það er ábyrgðarhlutur að vinna þannig saman og það skiptir máli að sýna ábyrgð, að þau mál sem þurfa gangi fram til að tryggja að fjárlög klárist í tæka tíð eins og okkur er skylt að gera og við höfum sagt að við viljum vinna saman að því markmiði. Við höfum sagst vera tilbúin til að koma málum þannig fyrir í samvinnu við stjórnina (Forseti hringir.) að hliðra til með Icesave-umræðuna, koma þeim málum í gegn sem þarf að gera og halda síðan áfram að ræða Icesave (Forseti hringir.) sem er eitthvert mikilvægasta mál sem Alþingi hefur nokkurn tímann fjallað um.