138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[13:14]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég kom örlítið inn á þetta í máli mínu hér áðan og kjarninn var auðvitað sá að ég held, þótt ég hafi ekki farið í rannsókn á því, að íslenska ríkið eða Alþingi Íslendinga hafi aldrei áður samþykkt ríkisábyrgð sem er jafn lausbeisluð og þessi. Ríkisábyrgð á lánum hafa, eins og hv. þm. Pétur Blöndal benti á, jafnan verið settar skorður. Það hafa verið tilgreindar upphæðir, lánstími og annað þess háttar og menn hafa sett skorður við ríkisábyrgðinni. Ég held að þessi ríkisábyrgð sé einsdæmi og eigi sér ekki fordæmi að því leyti, eins og hv. þingmaður bendir á, hvað hún er opin í alla enda. Hún er ótímabundin, það er skýrt, og hún gefur heldur ekki mikið til kynna um upphæðina. Við vitum hver höfuðstóllinn er í upphafi og við vitum að eitthvað kann að saxast á það eftir nokkur ár en við vitum líka að á sama tíma safnar upphæðin vöxtum, þess vegna út í hið óendanlega, eins og hv. þingmaður hefur nefnt. Það er hugsanlegt.

Vaxtakostnaðurinn er farinn að vega mjög þungt þegar við tölum um 5,55% vexti á hundruð milljarða. Ef við verðum t.d. í þeirri stöðu eftir sjö ár að ekki hafi endurheimst neitt eða mjög lítið af eignum Landsbankans er upphæðin, höfuðstóll með vöxtum, komin vel yfir 1.000 milljarða kr. Það er farið að slaga hátt í landsframleiðslu. Þetta á sér ekki fordæmi í sambandi við þær ríkisábyrgðir sem veittar hafa verið svo ég viti til.