138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:07]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég tek heils hugar undir með hv. þm. Ólöfu Nordal um að það sé mikilvægt að við tökum þessi mál til frekari skoðunar á sviði efnahags- og skattanefndar og í fjárlaganefnd. Þetta sögðum við reyndar flest í 2. umr. um málið í fyrri ræðu okkar, hvöttum til þess þá að málið yrði tekið inn í nefndina og þar af leiðandi gæti umræðan orðið miklu skilvirkari en ella. Við stöndum því miður í þeim sporum að skiptast eingöngu á skoðunum, fulltrúar minnihlutaflokkanna, sem er dapurlegt. Stjórnarflokkarnir virðast hafa tekið þá ákvörðun að taka ekki lengur þátt í umræðunni hér og jafnvel að vera ekki viðstaddir umræðuna, rétt eins og formaður fjárlaganefndar og varaformaður þeirrar nefndar. Ég þurfti að halda ræðu þar sem ég beindi fjölmörgum spurningum til þeirra en þeir voru ekki við og eru ekki í húsi og eru ekki viðstaddir (Forseti hringir.) þessa umræðu.