138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:13]
Horfa

Birkir Jón Jónsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég greindi ákveðinn áhyggjutón hjá hv. þingmanni gagnvart afgreiðslu fjárlaga og tekjuhliðar þeirra. Ég tek undir með hv. þingmanni og við höfum einmitt boðist til þess í stjórnarandstöðunni að hleypa þeim málum á dagskrá og með stuttri umræðu þannig að hægt væri að senda til að mynda öll skattafrumvörpin til efnahags- og skattanefndar því að það er mjög vandmeðfarið hvernig við vinnum að þeim breytingum, efnahags- og skattanefnd þarf mikinn tíma til þess að fara yfir þau vandasömu mál. En við erum mjög sein með þetta allt saman og það jaðrar við að vera kraftaverk ef við klárum allt þetta verk fyrir jól, þvílíkt er verkefnið fram undan. Ég býst við að við hv. þm. Pétur H. Blöndal munum þurfa að vera að störfum mörg kvöld og nætur á sviði efnahags- og skattanefndar til að fara yfir þessi mál. Það er grátlegt að ekki skuli vera búið að vísa þeim til nefndar og það er grátlegt hversu seint þau koma frá ríkisstjórninni.