138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:45]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir stórgóða ræðu. Ég vil taka sérstaklega undir orð hans um að samstöðu er þörf, við verðum að standa saman og við verðum að koma okkur upp úr skotgröfunum. Í þessu árferði skipta hægri og vinstri einfaldlega engu máli. Við verðum að ná samstöðu allra stjórnmálaafla sem eiga sæti á þingi og samstöðu meðal þjóðarinnar því að þetta mál er að sundra okkur sem þjóð.

En hv. þingmaður talaði um fleira. Hann reifaði það að nokkrir hæstv. ráðherrar í ríkisstjórn hafi fullyrt að nýju fyrirvararnir séu betri. Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann viti einhver dæmi þess utan þingsins að einhverjum Íslendingi finnist þessir fyrirvarar betri en gömlu fyrirvararnir. Eins langar mig að spyrja hv. þingmann hvort hann viti dæmi um það einhvers staðar að löggjöf lands sem þingið setur, þjóðkjörið þing, sé borin undir aðrar þjóðir. Veit þingmaðurinn einhver dæmi þess?