138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:50]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Fyrst það sem hv. þingmaður spyr um sem eru afskipti frá Evrópuþinginu. Það kom fram hér í gær að fréttir um það væru mistúlkaðar og rangtúlkaðar, fréttin á Pressunni væri ekki alveg rétt, var sagt hér í gær. Ég hef ekki kafað ofan í þessa ályktun sem gerð var á Evrópuþinginu en hér kom einn hv. þingmaður og upplýsti það — og hann stendur nú í dyrunum, hv. þm. Árni Þór Sigurðsson — að þessi frétt á Pressunni væri oftúlkuð. Ég hef ekki lesið þessa Evrópuályktun og get því ekki fullyrt neitt um það. Hins vegar verðum við að ... (Gripið fram í: Þið fóruð algerlega á taugum.) Nei, nei, ég fór ekkert á taugum, þetta kemur því máli ekkert við. Hins vegar var það, eins og ég sagði, upplýst hér í gær af hv. þm. Árna Þór Sigurðssyni að þetta væri oftúlkað og við förum ekkert að velta okkur upp úr því sem við þurfum að — það eru margir fundir í gangi í einu, það er svona þegar menn fara ræða Evrópusambandið, þá verða menn yfirleitt heitir. — En auðvitað er samspil milli Icesave og Evrópusambandsins, hv. þm. Ásmundur Einar Daðason upplýsti það um daginn, að það væru hrein tengsl þar á milli.

(Forseti (SVÓ): Forseti vill áminna hv. þingmenn um að vera ekki í tveggja eða þriggja manna tali í þingsalnum, allra síst þegar þingmenn eru í ræðustóli.)