138. löggjafarþing — 33. fundur,  27. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þingmanni fyrir ljómandi góða ræðu. Hann reifaði ýmislegt í tengslum við þetta mál, m.a. þessa fyrirvara sem hafa verið mér hugleiknir og ég hef hugsað mikið um. Ég hef mest verið að pæla í því hvernig í ósköpunum einhverjum dettur í hug að þessir fyrirvarar séu betri en gömlu fyrirvararnir en því höfum við heyrt fleygt í þinghúsinu. Ég hef einungis heyrt það hér og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi heyrt þetta einhvers staðar annars staðar. Ég hjó eftir því að hv. þingmaður talaði um að Icesave væri rándýr aðgöngumiði að Evrópusambandinu, hann notaði reyndar ekki alveg þau orð. En ég held að sú staðreynd sé alltaf að koma betur og betur í ljós.

Mig langar líka að spyrja hv. þingmann hvort hann deili áhyggjum mínum af þingræðinu, hvernig honum lítist á það að löggjöf Ísland sé tekin og borin undir aðrar þjóðir eða hvort hann þekki einhverjar fyrirmyndir að slíku. Það er líka spurning hvað þingmönnum finnst að við í stjórnarandstöðunni eigum að gera í þessu máli eða við þingmenn. Eigum við að reyna að breyta þessum fyrirvörum, reyna að snúa þeim eitthvað aftur eða er eina ráðið hreinlega að fella samninginn eða fella lögin? Við þurfum reyndar aðeins fleiri en stjórnarandstöðuna til þess.