138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:59]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (um fundarstjórn):

Frú forseti. Ég er mjög ánægður með að heyra að menn ætli að fara að ræða um framgang málsins og framgang þingsins í dag. Það er mikil óvissa að menn viti ekki einu sinni hvort gert verður matarhlé eða hvort vinna beri til klukkan fimm eða sjö, átta eða tólf, tvö eða þrjú, eða hvað. Það þarf að upplýsa þingmenn betur um vinnutímann en maður er reyndar öllu vanur.

Mig langar að benda hæstv. forseta, ef hann skyldi halda fund með formönnum þingflokka, á frumvarp til laga um breytingu á lögum um fjármálafyrirtæki. Ég hef grun um að það liggi mjög mikið á þessu, þetta varðar riftunarmöguleika fjármálafyrirtækja gagnvart útlöndum og alveg sérstaklega það mikla magn sem menn standa frammi fyrir. Ekki er hægt að ganga frá þessum málum á þeim tíma sem um er rætt. Ég vil spyrja hæstv. forseta hvort henni sé kunnugt um fyrir hvaða tíma þetta þurfi að vera orðið að lögum.