138. löggjafarþing — 34. fundur,  28. nóv. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:07]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Herra forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þingmanni fyrir yfirgripsmikla ræðu. Hann fór í gegnum það að Vinstri grænir þyrftu að sannfæra sitt fólk fyrir utan Alþingi. Ég vil spyrja hv. þingmann hvort það sé ekki meira atriði fyrir Vinstri græna að sannfæra sitt fólk innan Alþingis, þ.e. hv. þingmenn Vinstri grænna, sem margir hverjir eru mjög efins um þetta mál og taka ekki þátt í umræðunni og láta sig jafnvel hverfa til að þurfa ekki að hlusta á umræðu um alla þá vankanta sem eru á þessu máli. Það getur verið nógu erfitt fyrir menn að fara á svig við sannfæringu sína til að uppfylla ákveðna flokkshollustu eða til að viðhalda fyrstu vinstri velferðarstjórn á Íslandi, það getur verið nógu erfitt að fara á svig við sannfæringu sína í því máli þó að menn þurfi ekki að hlusta líka á alls konar ný rök sem komið hafa fram og gera það að verkum að þetta er í rauninni enn þá verra mál en þeir létu sig dreyma um.

Svo er önnur spurning til hv. þingmanns. Hann talaði um erlendar skuldir. Það er rétt að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn virðist geta breytt reiknireglunni eða reiknistokknum sínum eftir þörfum Breta og Hollendinga og nú geta Íslendingar allt í einu borgað miklu meira en áður. Ég spurði meira að segja fulltrúa Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á Íslandi að því í hv. efnahags- og skattanefnd hvar mörkin væru, hvað Íslendingar gætu eiginlega borgað og svo ekki meir. Ég spurði hvort tíföld þjóðarframleiðsla, þ.e. hvort 1000% væri eitthvað sem við gætum ekki borgað og ég fékk í rauninni afskaplega loðin svör. Nú hefur komið í ljós að jafnvel skuld Nýja Landsbankans við gamla Landsbankann er ekki talin með í þessum pakka. Veit hv. þingmaður eitthvað meira um það?