138. löggjafarþing — 35. fundur,  30. nóv. 2009.

breytingar á fæðingarorlofi.

[11:00]
Horfa

heilbrigðisráðherra (Álfheiður Ingadóttir) (Vg):

Frú forseti. Ég vil taka undir orð hv. þingmanns um að brjóstamjólk er auðvitað besta vörnin fyrir ungabörn og það er mjög mikilvægt að þær konur sem geta haft börn sín á brjósti hafi til þess aðstöðu. Til þess hefur jú fæðingarorlofið nýst okkur vel.

Mig langar til þess að ítreka að þær hugmyndir sem eru uppi núna um skerðingu á fæðingarorlofinu eru tímabundnar til tveggja ára. Þær eru hugsaðar til þess að við séum ekki að hola kerfið innan eða að brjóta það niður. Þetta eru tímabundnar aðgerðir sem eru nauðsynlegar vegna þess að við stöndum hér frammi fyrir 180 milljarða kr. gati í fjárlögum þessa árs og við þurfum að dreifa þessum byrðum á næsta ári á milli manna.

Mig langar til þess að segja að í Svíþjóð hefur það tíðkast lengi að menn hafa getað tekið jafnvel viku og viku upp í einn eða tvo mánuði af fæðingarorlofi allt þangað til (Forseti hringir.) börn byrja í skóla, m.a. til þess að auðvelda þeim aðlögun bæði að leikskólum og skólum. Það er því viðbúið að foreldrar sem kjósa (Forseti hringir.) að taka níunda mánuðinn mundu geta nýtt hann með þeim hætti.