138. löggjafarþing — 36. fundur,  2. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:38]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég verð að játa að mig hefur alltaf langað til tunglsins. Ég hafði raunar ekki hugsað um þessar upphæðir í því samhengi en ég var vissulega búin að telja öll núllin. Fyrst við komumst ekki til tunglsins þá geta Bretar og Hollendingar kannski komið sér upp geimferðaáætlun og notað þessar fjárhæðir til þess. Hvað varðar sáttasemjara þá held ég að brýn þörf sé á honum en á þessari stundu er ég ekki viss um að ég treysti Evrópusambandinu best í það verk. Einhvers staðar í ferlinu voru Frakkar nefndir sem milligöngumenn sem höfðu svo verið sniðgengnir af einhverjum aðilum málsins en mér fyndist það algerlega reynandi. Við ættum að reyna allt, alveg sama hversu fjarstæðukennt það er, til að landa þessu með ásættanlegum hætti. Ef við þurfum að leita til Evrópusambandsins, ef það er einhver lausn þá eigum við að sjálfsögðu að reyna það. En við ættum kannski fyrst að prófa að tala við Frakka úr því að það hefur verið gert áður.

Geimferðir eru vissulega spennandi en því hvort við komum Evrópusambandinu í geiminn, ef það hirðir Icesave-endurgreiðsluna okkar, verður einhver annar að svara.