138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:23]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (um fundarstjórn):

Hæstv. forseti. Ég vona að þetta fari ekki að hljóma staglkennt en auðvitað er það svo að ef hæstv. forseti svarar ekki spurningum verður þeirra spurt áfram. Ég ítreka þess vegna þær spurningar sem fram hafa komið hjá öðrum hv. þingmönnum um að forseti upplýsi um framhald þingfunda.

Ég vil líka stinga upp á því að hæstv. forseti eigi fund með formönnum þingflokka og reyni að ráðgast um framhald þingstarfanna eins og alsiða er þegar fundir dragast úr hófi fram. Ég vil spyrja hvort það sé einhver sérstök ástæða fyrir því að ekki hafi þegar verið boðað til slíks formannafundar þó að þeirri uppástungu hafi ítrekað verið komið á framfæri. Í þriðja lagi vildi ég ítreka ábendingu sem ég kom með fyrr í dag um að hæstv. forseti og hv. forsætisnefnd íhugi hvernig hægt sé að haga þinghaldinu almennt séð með skynsamlegum hætti (Forseti hringir.) en láti ekki undan þrýstingi frá ríkisstjórninni eins og virðist vera í þessu máli.