138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:43]
Horfa

Frsm. 1. minni hluta fjárln. (Þór Saari) (Hr) (andsvar):

Virðulegur forseti. Ég þakka hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni ágætisræðu. Það er ágætt að fá hagfræðivinkil á þetta inn á milli því að þegar upp er staðið snýst þetta um tölur og hvort til séu peningar fyrir skuldunum. Hann benti réttilega á að gert er ráð fyrir mjög lágu raungengi sem þýðir einfaldlega mun verri lífskjör en tíðkast í nágrannalöndunum. Það mun þýða náttúrlega fólksfækkun sem þýðir þá náttúrlega minnkandi hagvöxt því að hagvöxturinn verður vegna fólksins.

Mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann þekki nokkur konkret dæmi, þó að við höfum dæmi um lélegan hagvöxt kannski í áratugi í Japan, um lönd sem hafa lent í svipaðri stöðu þar sem skuldirnar hafa orðið það miklar og raungengið lækkað það mikið að fólk hafi flutt úr landi og þar af leiðandi hafi það einfaldlega staðnað eða lent í spíral niður á við. Hvað hefur þá orðið um þau lönd? Ég tel mig hafa nokkra reynslu af sumum þeirra suður í Afríku þar sem ég hef unnið svolítið undanfarin ár og mér sýnist margt líkt með þeim aðstæðum og þeim sem við stöndum frammi fyrir en það væri ágætt ef hv. þingmaður gæti gefið okkur einhver dæmi þar um.