138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[03:15]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég fagna því að hv. formaður fjárlaganefndar situr í hliðarsal og kallar fram í og á í viðræðum við þann hv. þingmann sem ég á í andsvari við. Ég hvet hv. þm. Guðbjart Hannesson til að koma í ræðustól og halda þessum rökum sínum á lofti vegna þess að okkur er ekki bjóðandi að setið sé frammi og kallað fram í svo maður nær ekki að eiga viðræður við þá hv. þingmenn sem maður er í andsvari við. Ég hvet hv. þingmann, þar sem hann segir að við séum ekki upplýst um það sem fram fari í fjárlaganefnd, að hann komi einfaldlega í ræðustól og upplýsi okkur um það. Það er greinilegt að við vitum það ekki til hins ýtrasta þar sem hv. þingmaður hefur ekki sinnt sinni upplýsingaskyldu.

Hv. þm. Gunnar Bragi Sveinsson hefur ekki séð þessa frétt á mbl.is en þar er einfaldlega verið að fjalla um fullveldið sjálft. Sigurður Líndal lagaprófessor segir að hluti af sjálfstæðisbaráttunni hafi verið að fá dómsvaldið til landsins og því sé slíkt samkomulag afsal fullveldis. (Forseti hringir.) Þetta eru ekki lítil orð og þessu ber ekki að taka með léttúð.