138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[04:06]
Horfa

Illugi Gunnarsson (S) (andsvar):

Herra forseti. Hvað varðar þá hugmynd að leita til annarra ríkja eða aðila til þess að miðla málum þá þykist ég svo sem vita, eða get ímyndað mér það, að ríkisstjórnin hafi reynt að fá aðra aðila að málinu. Það kann að vera að það sé erfitt vegna þess að ekki er eingöngu við Breta og Hollendinga að eiga, hér er við allt Evrópusambandið að fást. Þetta snýr að innstæðutryggingarkerfinu í álfunni og það eru það miklir hagsmunir undir að alltaf verður við mjög ramman reip að draga.

Við höfum greinilega ekki getað gert þetta með öðrum hætti eða það hefur verið mat íslenskra stjórnvalda að þetta hafi verið sú eina leið sem hafi verið opin. Hvort aðstæður séu að breytast á þann veg að kannski sé mögulegt að skjóta málinu aftur í umræðu og fá þá þriðja aðila til að vinna með okkur — ég kann ekki að meta það, það væri þá frekar að hæstv. fjármálaráðherra gæti svarað slíku. Auðvitað væri það t.d. æskilegt að Evrópusambandið kæmi að málinu af því að það á sjálft svo mikið undir. Þeirri skoðun hefur verið hreyft af fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, að nauðsynlegt hefði verið að ESB hefði komið að þessu máli með miklu skýrari og ríkari hætti.

Hvað varðar málsmeðferðina hér í þinginu, sem hv. þm. Þór Saari kom að í upphafi andsvars, er það rétt að ég held að ríkisstjórnin hafi reynt að keyra málið of hratt út úr nefndum áður en það var fullklárað. Ég held að það hafi verið vanbúið til umræðu þegar það kom inn í þingsalinn. Það hefur gert það að verkum að umræðan hefur tekið lengri tíma af því að að hluta til erum við að fara í (Forseti hringir.) sömu vinnu og nefndirnar eiga að gera. Það tekur bara tíma þegar menn gera það eins og hér er gert.