138. löggjafarþing — 36. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[05:36]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ef það er svo að það ákvæði sem hæstv. fjármálaráðherra fjallar hér um varðandi dómstólinn eigi að skýra þrengra en þingmenn almennt skilja hér og virðulegir lagaprófessorar úti í bæ, er augljóst að það er ekki nógu skýrt. Ég tel að það sé algerlega augljóst að þetta er allt saman á einhverjum misskilningi byggt. Og ég fagna því að hæstv. fjármálaráðherra hefur sannfæringu fyrir því að þetta standist og hann hafi leitað sér mikillar ráðgjafar hjá reyndum mönnum. En væri eitthvað að því, hæstv. forseti, í ljósi þess að núverandi ríkisstjórn hefur margítrekað í orðum og ræðum og riti að hér sé ástunduð opin, lýðræðisleg og gagnsæ vinnubrögð í öllum málum að fara betur yfir þetta? Er eitthvað því til fyrirstöðu? Ég skil ekki hvers vegna, hæstv. forseti, menn þráast við að upplýsa mál sem virðist, þegar hæstv. ráðherrar stjórnarliðsins koma í pontu, svo agalega einfalt að útskýra? (Gripið fram í.) Hvers vegna þessi þögn, herra forseti? Hvers vegna er ekki lagt fram, eins og hv. þm. Pétur H. Blöndal hefur margítrekað spurt um, hvers vegna leggur fjárlaganefnd ekki fram álit eftir þennan fund? Hvers vegna er það ekki gert, herra forseti? Hvers vegna eru ekki ástunduð þessi opnu, lýðræðislegu og vönduðu vinnubrögð? Það er það sem ég gagnrýni hér og ég fagna því enn og aftur að hæstv. fjármálaráðherra hafi komið upp í andsvar við mig.

Varðandi það sem ég náði ekki að svara í fyrra andsvari hans um hvað ég sagði í EES- og Schengen-málunum, er ég því miður ekki þeim kostum búin að vera með svo langa þingreynslu að ég hafi setið undir þeim málum, þannig að ég get því miður ekki farið yfir þingræður mínar þar sem ég var væntanlega enn þá í barnaskóla.