138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[12:14]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S) (andsvar):

Frú forseti. Hæstv. fyrrverandi utanríkisráðherra, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, kom fram fyrir skömmu og sagði að menn hefðu samið sem sakbitnir menn. Þeir vissu upp á sig sökina, þeir voru sannfærðir um það að gagnaðilinn hefði rétt fyrir sér. Þetta er náttúrlega mjög hættuleg samningatækni, frú forseti, og leiðir til þess að menn samþykkja nánast hvað sem er. Nú er að koma í ljós, sérstaklega eftir ræðuna sem ég las frá fjármálaráðherra Hollands, að við eigum ekki að borga neitt. Hann segir að skattgreiðendur eigi ekki að borga fyrir innlánstryggingar þannig að ég held að menn þurfi rétt aðeins að draga andann og leyfa þessu máli að setjast pínulítið. Menn ættu að halda þessari ræðu fjármálaráðherra Hollands undir nefið á samninganefnd Hollands og segja þeim: Bíddu við, ykkar maður sagði þetta. Viljið þið ekki semja upp á nýtt? Af hverju eiga íslenskir skattgreiðendur einir að borga þetta? Vegna þess að skattgreiðendur Hollands og Bretlands munu ekki borga þetta.