138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:06]
Horfa

Margrét Tryggvadóttir (Hr) (andsvar):

Herra forseti. Ég get tekið undir það að tónninn var allur annar í lok sumars í máli stjórnarliða og það er einmitt sá tónn sem við ættum öll að reyna að sameinast um. Ég held að ríkisstjórnin standi ekki sterk í þessu máli vegna þess að hún hefur svo nauman meiri hluta, ef hún hefur meiri hluta á annað borð, og það er svo vont. Það er svo vont fyrir hæstv. fjármálaráðherra eða stjórnvöld hvar sem er að fara fram með svona mál, það er svo veik samningsstaða að hafa ekki þjóðina með sér. Meðan við höfum ekki þjóðina með okkur í þessu máli getum við ekki landað því með fullnægjandi hætti. (VigH: Rétt.) Þess vegna finnst mér svo mikilvægt að við tökum það út fyrir þennan sal og úr þessu karpi sem þetta mál er búið að vera í, setjumst einhvers staðar annars staðar, reynum að finna einhvern flöt á þessu og fara að tala saman.