138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[14:47]
Horfa

Árni Johnsen (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Íslendingar hafa gengið í gegnum fátækt og ríkidóm í sögu sinni og alltaf spjarað sig. En það skýtur skökku við þegar ríkisstjórn Íslands stefnir að því með versta samningi í sögu Íslands, Icesave-samningnum, að búa til fátækt á Íslandi. Svo eru meira að segja reyndir og sjóaðir menn á landsbyggðinni, í hópi stjórnarsinna, sem verja þessa skelfingu. Það er alveg bölvanlegt, grábölvanlegt, virðulegi forseti. Það er það sem særir. (PHB: Þeir skilja þetta ekki.) (SER: Landráð.) Þeir skilja það ekki og hafa ekki sett sig inn í það. Það getur ekki verið að þeir hafi sett sig inn í það. Það er verið að veðsetja börnin í framtíðinni með þessum samningum með því að búa til fátækt á Íslandi, nema allt gangi (Forseti hringir.) okkur í hag, virðulegi forseti. Þá léttir það róðurinn. (Forseti hringir.)

(Forseti (ÁÞS): Forseti biður um hljóð í þingsal.)