138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[15:36]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það má velta því fyrir sér og það má ætla sem svo að Bretar og Hollendingar hafi áttað sig á að vafi léki á því að íslenska ríkið, íslenska þjóðin gæti staðið við þessar skuldbindingar, enda má í raun lesa út úr því bréfi sem forsætisráðherra Bretlands, Gordon Brown, sendi hæstv. forsætisráðherra Íslands, Jóhönnu Sigurðardóttur, óskaplega mikinn feginstón því að það er ítrekað að nú sé hægt að ganga frá þessu því að búið sé að gera viðaukasamning og fella inn í samninginn og gera lagabindandi þá fyrirvara sem við settum.

Hvers vegna ætli breski forsætisráðherrann sé svona ánægður með að það skuli vera orðin lagaleg skýring á þessu inni í samningnum? Það er vegna þess að um hann gilda ensk lög. Það er vegna þess að hann hefur skilning á því og sér það að verði málið rekið fyrir breskum dómstóli mun orðanna hljóðan í samningum gilda og þá sér hann fram á fullnaðarsigur yfir íslensku þjóðinni komi til kasta þessa.

Hins vegar er furðulegt að mínu mati, hv. þingmaður, að stjórnvöld hafi litið svo á að lagafrumvarpið sem Alþingi samþykkti í ágúst hafi verið eins konar gagntilboð til Breta og Hollendinga. Þetta voru skilyrt lög sem voru samþykkt af Alþingi, skilyrði fyrir því að veita ríkisábyrgð á þessi lán. Það er búið að taka þetta allt úr sambandi.