138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:12]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég get tekið undir með hv. þingmanni, ég held að núverandi ríkisstjórn hafi gert gríðarleg mistök. Alþingi Íslendinga ákvað fyrir tæpu ári að það ætti að reyna að semja við Breta og Hollendinga. Það er fullkomlega eðlilegt, ekki bara í samskiptum þjóða, heldur í samskiptum tveggja deiluaðila, hvort sem um er að ræða fyrirtæki eða einstaklinga. Menn reyna að setjast niður og ná fram lausn þar sem hagsmuna beggja aðila er gætt í hvívetna. Við treystum reyndar ekki alveg ríkisstjórninni og þess vegna settum við hin svokölluðu Brussel-viðmið þannig að það yrði tryggt að hagsmunir Íslendinga yrðu aldrei fyrir borð bornir. En hvað gerist? Brussel-viðmiðin voru algjörlega tekin út úr myndinni. Þeirra var ekki getið. Hvergi var tekið tillit til hinna erfiðu aðstæðna sem Íslendingar voru í.

Þegar einhver fær umboð til að semja en fer ekki eftir skilyrðunum fellur umboðið einfaldlega niður. (VigH: Rétt.) Það er einföld meginregla í samningarétti milli einstaklinga og allra sem eiga í samningaviðræðum.

Það er kannski þess vegna sem þessi leynd og þetta pukur var yfir því hvernig samningarnir voru kynntir. Kannski sá hæstv. fjármálaráðherra þess vegna ástæðu til að ræða um það hversu glæsilegir samningarnir væru áður en þjóðin fékk að sjá þá. En það var ekkert annað en barátta stjórnarandstæðinga, Framsóknarflokksins, sem gerði það að verkum að samningarnir voru birtir og að öll álitaefni komu upp á borðið. Við munum halda þeirri baráttu áfram. (Forseti hringir.) Við ætlum ekki að leggja niður vopn (Forseti hringir.) hér á Alþingi. (VigH: Heyr, heyr.)