138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[20:47]
Horfa

Gunnar Bragi Sveinsson (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þar sem fyrirvararnir í lögum um ríkisábyrgðina eru nú komnir inn í samninginn sem gerður er í rauninni við tryggingarsjóðinn með ríkið sem einhvers konar ábeking er búið að setja stimpil enskra laga á fyrirvarana. Ég hef alltaf haldið því fram að það væri mjög varhugavert því að um samninginn gilda ensk lög og samkvæmt þeirri kynningu sem ég hef fengið á þeim þætti eru þau túlkuð eftir orðanna hljóðan, þ.e. þeim lagabálki sem um samninginn gildir. Það þýðir að þegar hugsanlega, við skulum hafa það alveg á hreinu að það er bara hugsanlegt, er komið inn í enskan réttarsal verði samningurinn túlkaður eins og hann stendur. Að mínu viti rýrir sá hluti varðandi fyrirvarana þá mjög mikið. Hins vegar er vitanlega búið að breyta fyrirvörunum frá því sem þeir voru áður.

Varðandi seinni spurninguna, að löggjafinn segi dómsvaldinu hvernig það á að vinna, hef ég klórað mér mikið í höfðinu yfir einmitt þessu máli og þeim skilaboðum sem verið er að senda. Ég hef velt því fyrir mér og spurt hér hvort það geti verið að það sé verið að segja við íslenska dómstóla að þeim sé ekki treystandi í raun og veru ef það þarf að leita samþykkis erlends dómstóls við því sem íslenskir dómstólar munu samþykkja eða kveða upp úr. Það finnst mér mjög sérstakt. Auðvitað eigum við að hugsa fyrst og fremst um hvernig (Forseti hringir.) dómstólar hér munu dæma í málinu.