138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:34]
Horfa

Ásbjörn Óttarsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þingmaður kallaði eftir því að hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra yrði viðstaddur sem er ómögulegt þar sem hann er erlendis. En mig langar að vekja athygli á því, frú forseti, að einungis tveir hæstv. ráðherrar og einungis fjórir hv. þingmenn stjórnarinnar hafa tekið þátt í þessari umræðu, 2. umr. Það segir kannski allt um það hvað um er að vera. Í eina skiptið sem þeir koma í salinn er þegar þeir greiða atkvæði um að hinir skuli sitja hér á kvöldin, taka svo engan þátt í umræðunni. Það segir manni mikið. (Gripið fram í: Þú gleymir …)

Hv. þingmaður kom mjög vel inn á erlendar skuldir. Mér finnst mjög margir ekki gera sér grein fyrir því að það er ekki sama hvort menn skulda í erlendri mynt eða íslenskri, og mig langar að spyrja hv. þingmann hvort hann hafi ekki áhyggjur af því. Það kemur fram í greinargerð Seðlabankans að núna verði gengi krónunnar mjög lágt um langa hríð. Hefur hv. þingmaður ekki verulegar áhyggjur af því að það muni taka afskaplega langan tíma að rétta gengi krónunnar?