138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[22:39]
Horfa

Pétur H. Blöndal (S):

Frú forseti. Vegna endurtekinna kvartana hv. stjórnarliða ætla ég að byrja á því að taka fram hvað ég ætla að fjalla um. Ég ætla að byrja á því að fjalla um tilskipun nr. 94/19/EB, um innlánstryggingar, til að koma í veg fyrir að menn segi nokkurn tímann aftur að Íslendingar eigi að borga Icesave. Síðan ætla ég að fjalla um nýja tilskipun, 2009/14/EB, sem ekki hefur tekið gildi á Evrópska efnahagssvæðinu en hefur hins vegar tekið gildi í Evrópusambandinu. Hún kemur með gífurlegar breytingar á innlánstryggingarkerfinu, hefur ekki verið í umræðunni en hefur mjög mikið að segja. Ef tími vinnst til ætla ég að byrja á því að fara í gegnum áhættugreiningu og ræða verðhjöðnun og verðbólgu í Bretlandi.

Ég ætla að byrja á því að ræða innlánstryggingar. Það sem þarf að byrja á að skoða er tilskipun Evrópuþingsins og ráðsins 94/19/EB. Þar stendur, með leyfi frú forseta:

„Það er ekki bráðnauðsynlegt í þessari tilskipun að samræma leiðirnar við fjármögnun kerfa sem tryggja innlánin eða lánastofnanirnar sjálfar, meðal annars vegna þess að lánastofnanirnar skulu sjálfar almennt bera kostnaðinn við fjármögnun slíkra kerfa og einnig vegna þess að fjárhagsleg geta kerfanna skal vera í samræmi við tryggingaskuldbindingarnar. Þetta má samt ekki stefna stöðugleika bankakerfis aðildarríkisins í hættu.

Tilskipun þessi getur ekki gert aðildarríkin eða lögbær yfirvöld þeirra ábyrg gagnvart innstæðueigendum ef þau hafa séð til þess að koma á einu eða fleiri kerfum viðurkenndum af stjórnvöldum sem ábyrgjast innlán eða lánastofnanirnar sjálfar og tryggja að innstæðueigendur fái bætur og tryggingu í samræmi við skilmálana í þessari tilskipun.“

Frú forseti. Ég óska eftir því að enginn segi lengur að Íslendingar hafi átt að borga þetta. Þarna stendur að innlánsstofnanirnar eigi að borga þetta og aðildarríkin megi ekki borga það.

Svo ætla ég formsins vegna að lesa 1. mgr. 7. gr.:

„Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20.000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.“ (Gripið fram í.)

Þetta er Ragnar Halls-ákvæðið sem segir að það eigi að tryggja manni upp að rúmum 20.000 evrum og ef hann fær greitt víðar að og er kominn upp í 20.000 evrur á hann ekki að fá meira, þ.e. íslenski innstæðutryggingarsjóðurinn hlýtur að hafa forgang því að hann tryggir manninum fyrstu 20.000 evrurnar. Samkvæmt þessu getur ekki verið að með því að skipta kröfunum í þrennt fái maðurinn greitt meira.

Svo er dálítið athyglisvert hérna sem varðar ábyrgð Hollendinga. Í viðauka eru meginatriði til hliðsjónar. Þar segir, með leyfi forseta:

„Sæki útibú um aðild að tryggingakerfi gistiríkis, setur kerfi gistiríkisins tvíhliða ásamt kerfi heimaríkisins viðeigandi verklagsreglur um greiðslur bóta til innstæðueigenda í því útibúi.“

Holland og Ísland eiga að búa til reglur. Svo segir í a-lið:

„kerfi gistiríkisins hefur áfram fullan rétt til að beita almennum og hefðbundnum reglum sínum gagnvart aðildarlánastofnunum; það hefur rétt til að krefja stofnanirnar um viðeigandi upplýsingar og bera þær saman við upplýsingar hjá þar til bærum yfirvöldum í heimaríkinu“.

Það þýðir að Hollendingar áttu að hafa eftirlit með Icesave, það stendur þarna. Það stendur þarna að þeir hafi fullan rétt til að beita almennum og hefðbundnum reglum sínum gagnvart innlánum, þ.e. Hollendingar. Icesave fór í gang með miklum hvelli og það gekk svo hratt að á þrem mánuðum var öll skuldbindingin komin. Á þeim tíma hafði íslenska Fjármálaeftirlitið afskaplega lítil tök á því að fylgjast með. Það hollenska hafði hins vegar öll tök á því. Það brást.

Ég las í síðustu ræðu minni ræðu frá Wouter Bos, fjármálaráðherra Hollands, frá 3. mars, þrem mánuðum áður en hann skrifaði undir samninga við Íslendinga, en þar talar sá ágæti maður um innlánstryggingarkerfið. Ég ætla að lesa það á ensku fyrst:

„It was not designed to deal with a systemic crisis but with the collapse of a single bank.“

Það var ekki hannað til að ráða við kerfishrun heldur gjaldþrot einstakra banka. Þessi maður er svo að semja við Íslendinga um að þeir eigi að borga fyrir kerfishrun þar sem 80% af bönkunum hrundu. Það er fráleitt að okkar samningamenn skuli ekki hafa haldið þessari setningu undir nefið á sínum hollensku viðsemjendum og sagt: Heyrðu, fjármálaráðherra ykkar sem við erum að semja við segir að við eigum ekki að borga þetta. Kerfið var ekki hannað fyrir þetta. Það er ótrúlegt, frú forseti. Þetta var þrem mánuðum áður en hæstv. fjármálaráðherra skrifaði undir.

Þá kemur að tilskipun, og það sem leiddi mig til hennar var grein í Morgunblaðinu 26. nóvember eftir Loft Altice Þorsteinsson þar sem hann segir í fyrirsögn:

„Tilskipun 2009/14/EB og kæfandi faðmlag Evrópusambandsins.“

Þar vísar hann í dálítið merkilega breytingu sem hefur ekki komið í umræðuna. Þessi tilskipun var gefin út 11. mars 2009, mjög nýlega, og átti að taka gildi 30. júní 2009 í Evrópusambandinu. Í 7. gr. sem ég las áðan og ætla að lesa aftur segir í 1. mgr.:

„Innlánatryggingakerfin tryggja að samanlögð innlán hvers innstæðueiganda séu tryggð upp að 20.000 ECU ef innlánin verða ótiltæk.“

Innlánstryggingarkerfið á að tryggja. Hér stendur og þá á ensku aftur, frú forseti:

„Member States shall ensure that the coverage for the aggregate deposits of each depositor shall be at least EUR 50.000 in the event of deposits being unavailable.“ (Gripið fram í: Hvað þýðir þetta?)

Þetta þýðir að aðildarríkin eigi að tryggja að upphæðin skuli vera tryggð þannig að innstæðueigandinn fái a.m.k. 50.000 evrur ef innstæðan er ótiltæk, eins og þeir kalla það.

Hvað þýðir þetta, frú forseti? Þetta hefur ekkert verið með í allri umræðunni. Þetta er tilskipun sem tók gildi 10. mars. Hvað segir þetta? Það er komin ríkisábyrgð á allar innstæður í Evrópusambandinu, að 50.000 evrum, ekki 20.000, heldur 50.000. Svo á það að hækka upp í 100.000 í lok ársins 2010. Hvað þýðir þetta? Ef þetta gildir á Íslandi þýðir það að ríkið yrði að taka ábyrgð á 2.000 milljörðum, innstæðum í bönkunum. Það þýðir í reynd eða mér sýnist það að ekki verði reknir einkabankar í Evrópusambandinu. Allir bankar þurfa að vera ríkisbankar í rauninni af því að það er ríkisábyrgð á öllum innstæðum upp að þessu marki. Markið er mjög hátt. Þetta er gífurlega mikil breyting. Svo spyrja menn, frú forseti: Af hverju í ósköpunum er Evrópusambandið að taka upp ríkisábyrgð á innstæðum — ef það skyldi hafa verið ríkisábyrgð fyrir? Það er vegna þess að það var ekki ríkisábyrgð á innstæðum og þess vegna áttu Íslendingar aldrei að borga þetta. Íslenskir skattgreiðendur áttu aldrei að borga þessa innstæðu sem um var að ræða.

Frú forseti. Ef einhver segir hér á eftir að ég sé í málþófi vil ég ræða við þann mann einslega.