138. löggjafarþing — 37. fundur,  3. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[23:23]
Horfa

Sigurður Ingi Jóhannsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil byrja á því að þakka hv. þm. Árna Johnsen þróttmikla ræðu og taka undir með honum að það getur verið hált að halda á fjöreggi þjóðarinnar og passa upp á lýðveldið. Það er rétt sem kom fram í máli hans að á fyrsta lýðveldistíma Íslandssögunnar, þ.e. þjóðveldistímanum, börðust menn víða og tókust á, en þrátt fyrir allan hetjuskapinn lauk lýðveldinu og endalok þjóðveldisins urðu og sá tími tók við sem hv. þingmaður vísaði til. Það er líka rétt að minnast þess reglulega að þau 65 ár sem hefur verið lýðveldi hér er ansi stuttur tími.

Hv. þingmaður kallaði í ræðu sinni stefnuleysi eða stefnu ríkisstjórnarinnar skjögt. Ég hefði áhuga á að heyra álit hans á því sem mætti kannski kalla stefnu eða markmið Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem hefur á því ári sem liðið hefur frá hruninu sífellt verið að endurmeta skuldastöðu þjóðarinnar og ævinlega sagt að þjóðin þoli meiri og meiri byrðar og það megi þá bara herða sultarólina aðeins meira svo menn borgi hærri skatta, skeri meira niður, flytji minna inn þannig að útflutningurinn geti hugsanlega blómstrað og þannig getum við hugsanlega greitt sífellt meira og meira. Mig langaði að heyra álit hv. þingmanns á því hvað hann mundi kalla þessa stefnu, sem í virðist felast að hægt sé að bæta við byrðarnar (Forseti hringir.) og herða ólina eiginlega endalaust.