138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[00:05]
Horfa

Eygló Harðardóttir (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég þakka hv. þm. Ásbirni Óttarssyni kærlega fyrir ræðuna. Ég vil spyrja hann út í nokkra þætti.

Ég hef haft töluverðar áhyggjur allt frá því í sumar hvað við virðumst vera föst inni í ákveðnum kassa. Við fengum þennan samning og höfum rætt hann, nú síðast með viðaukasamningum. Það virðist vera eins og menn hafi aldrei nokkurn tímann verið tilbúnir til þess að taka lokið af kassanum og athuga hvort einhverjar aðrar leiðir væru til að leysa þetta mál en þær sem lagðar eru til í þessum samningum, sem sagt að fá lán frá Bretum og Hollendingum. Þessi kassi er líka rammaður inn með Brussel-viðmiðunum, þar sem við tökum á okkur þessa ábyrgð upp á 20.887 evrur.

Ég spyr hvort skoðað hafi verið hvort sú ákvörðun að takmarka ábyrgð okkar við 20.887 evrur hafi í raun og veru verið rétt eða hvort það hefði jafnvel komið svipað út eða betur gagnvart réttarstöðu okkar og samningum við Breta og Hollendinga hefðum við reynt að jafna þeirra ábyrgð, sem er ótakmörkuð hjá Bretum gagnvart einstaklingum og upp að 100 þúsund evrum hjá Hollendingum? Áætlað er að heildarkröfur á Landsbankann séu um 1.300 milljarðar og nú er talað um að allt fáist upp í forgangskröfurnar og jafnvel eitthvað upp í almennar kröfur líka, hefðum við þá getað sagst ætla að borga þetta í íslenskum krónum? Hv. þm. Ásbjörn Óttarsson og ég höfum velt mikið fyrir okkur hvort einhver leið sé til þess að borga í íslenskum krónum. Einnig spyr ég hvort skoðað hafi verið að leita eftir annarri fjármögnun en þessum lánum frá innstæðutryggingarsjóðnum og hollenskum stjórnvöldum. (Forseti hringir.)