138. löggjafarþing — 37. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[01:33]
Horfa

Einar K. Guðfinnsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Ég vil svara þessu skýrt, að sjálfsögðu eigum við að leita allra leiða í þessum efnum. Það er alveg ljóst að það vaxtastig sem við erum núna að gangast undir, ef hæstv. ríkisstjórn fær vilja sínum framgengt, er langt umfram það sem eðlilegt getur talist Allir eru sammála um það í sjálfu sér. Röksemdirnar hafa verið þær að þetta séu fastir vextir og við græðum þess vegna á þessu. Nú er hins vegar búið að sýna fram á annað. Það er búið að sýna fram á að þetta er skökk hugsun og mistök í samningagerðinni. Þetta var einfaldlega yfirsjón af hálfu hæstv. ríkisstjórnar og hún ætti að hafa manndóm í sér (Gripið fram í: Rétt.) til að leiðrétta þetta og gera þær breytingar á þessu frumvarpi sem gera okkur kleift að a.m.k. reikna okkur upp í lægri fjármagnskostnað en hæstv. ríkisstjórn gengur hér út frá. Þó að þessi samningur sé kolómögulegur hlýtur hæstv. ríkisstjórn a.m.k. að vilja — og kannski vegna þess að hann er kolómögulegur — taka tillit til sanngjarnra ábendinga sem hafa komið fram frá t.d. hv. þingmanni og hv. þm. Tryggva Þór Herbertssyni um að hægt sé að létta þessa fjármagnsbyrði. Ég trúi því ekki að hæstv. ríkisstjórn, þótt hún sé ómöguleg að flestu leyti, sé svo forstokkuð að hún vilji ekki einu sinni hlusta á góðar og jákvæðar uppbyggjandi tillögur um að gera þennan vonda samning aðeins bærilegri fyrir íslenska þjóð og ég tala ekki um börnin sem eiga að erfa landið.