138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[11:46]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F):

Frú forseti. Forritið excel er til margra hluta nytsamlegt. Til að mynda skrifaði ég ræðu mína í excel og ástæðan er sú að það eru svo mörg stór efnisatriði í þessu máli sem þarf að fjalla um að það þurfti slíkt forrit til að halda utan um það. Ég er enn ekki hálfnaður með að fara yfir þessi stærstu atriði málsins og er þar af leiðandi langt frá því að vera kominn í stöðu til að geta yfirleitt hafið málþóf þó að þetta mál mundi svo sannarlega réttlæta slíkt. En áður en að því kemur þarf ég að fara yfir þessi meginatriði málsins og ég tek undir það sem hv. þm. Tryggvi Þór Herbertsson nefndi áðan, fjölmargir þingmenn hafa hvað eftir annað flutt ræður þar sem fram koma nýjar staðreyndir, jafnvel hlutir sem ég hafði ekki heyrt af áður þrátt fyrir að hafa fylgst ágætlega með þessu máli í meira en heilt ár. Ég held að það væri mjög gagnlegt fyrir stjórnarliðið, að ég tali ekki um hæstv. ráðherra, að fylgjast með umræðum en ef þeir hafa ekki tök á því að gætu þeir flett upp ræðunum á netinu. Meira að segja ég hef flett upp ræðum á netinu til að fara betur yfir hluti sem þar koma fram.

Nú mun ég halda áfram upptalningu þessara stærstu atriða Icesave-málsins. Hvert og eitt þeirra mundi réttlæta heila umræðu í þinginu en ég mun reyna að tala tiltölulega stuttlega um hvert og eitt atriði til að byrja með.

Númer 36 er býsna stórt atriði, enda er það sú upphæð sem um er að ræða, sú upphæð sem lendir á íslenskum almenningi, skattgreiðendum í formi vaxtagreiðslna. Vextirnir munu alltaf lenda á íslenskum almenningi, sama hversu mikið innheimtist af þrotabúi gamla Landsbankans. Það hefur ekkert með það að gera. Vextirnir sem verða greiddir næstu árin munu alltaf og óhjákvæmilega lenda á íslenskum skattgreiðendum. Þeir eru 100 millj. kr. á hverjum einasta degi. Á hverjum einasta degi, ár eftir ár þurfa íslenskir skattgreiðendur að borga 100 millj. kr. fyrir ekki neitt. Það væri hægt að gera eitt og annað fyrir 100 millj. kr. Ef við snúum dæminu við má líta svo á að það þurfi að skera niður um 100 millj. kr. á dag miðað við það sem ella hefði verið gert, einungis til að standa undir vaxtagreiðslunum af þessum Icesave-samningum. Og í ljósi þess hvað ríkisstjórnin hefur átt erfitt með að skera niður, erfitt með að takast á við fjárlagafrumvarpið, sér maður ekki fyrir sér hvernig ríkisstjórnin, ef hún verður eitthvað áfram, ætlar að fara að því að skera niður um 100 millj. kr. á hverjum einasta degi. (Gripið fram í.) Fyrir 100 millj. kr. væri hægt að gera ýmislegt, eins og sjá má ef fjárlagafrumvarpinu er flett. (Gripið fram í.) Fyrir 100 millj. kr. væri hægt að koma til móts við íslenskar fjölskyldur og íslensk heimili og jafnvel hægt að koma til móts við íslensk fyrirtæki sem flest eiga í verulegum erfiðleikum. Það kostar t.d. ekki nema 99 millj. kr. að halda Ráðgjafarstofu um fjármál heimilanna gangandi, þ.e. eftir þær viðbætur sem nú er gert ráð fyrir að renni til þeirrar stofnunar. Jafnréttisstofa eru 72 millj. kr. á ári. Þegar menn skera niður um 100 millj. kr. á dag í mörg ár hefur það áhrif á líf hvers einasta manns í landinu. Það hefur áhrif á heilbrigði fólks því að það verður óhjákvæmilegt að spara í heilsugæslunni miðað við það sem ella hefði verið og það mun birtast til að mynda í því að menn hafa ekki efni á þeim lyfjum sem þeir hefðu ella haft efni á, þeim tækjum, og það mun hafa bein áhrif á jafnvel lífslíkur fólks. Það er mjög einfalt dæmi. Það er því miður samasemmerki milli þess sem ríki geta varið í heilbrigðisþjónustu og þess heilbrigðis sem íbúar landa geta vænst. 100 millj. kr. á dag munu því hafa áhrif á efnahag hvers einasta Íslendings, áhrif á heilsu þeirra, áhrif á menntun, áhrif á allt í íslensku samfélagi. Það er þess vegna ekki að ástæðulausu sem við teljum mikilvægt að ræða þetta mál í þaula og að reyna til þrautar að útskýra fyrir ríkisstjórninni grunnstaðreyndir þessa máls en enn vantar mikið upp á að hæstv. ráðherrar sýni skilning á því.

Atriði nr. 37 varðar gjaldeyrismálin, annað atriði sem oft er litið fram hjá í þessu máli. Þegar reynt er að halda því fram að við getum á einhvern hátt skrapað saman 100 millj. kr. á dag með því væntanlega að skera niður hér og þar og spara við okkur, gleymist að skuldin er í erlendri mynt. Það er ekki nóg að safna saman 100 millj. kr. á dag í íslenskum krónum. Það þarf að vera hægt að kaupa bresk pund og evrur fyrir þessar krónur. Fjölmargir eru búnir að sýna fram á það, m.a. hafa þeir sýnt fjárlaganefnd fram á að það er nánast ómögulegt að spara þennan gjaldeyri þótt ekki sé nema með því að líta til þess hvernig gjaldeyrisöflun Íslendinga hefur verið háttað í gegnum tíðina og hvers má vænta af því í framtíðinni. Jafnvel þó að alger umsnúningur yrði og flutt yrði út miklu meira en flutt er inn, eins og staðan er reyndar núna, það er flutt út töluvert meira en flutt er inn af vörum, dugar það ekki til vegna þess að vaxtagreiðslurnar eru það háar, ekki bara vegna Icesave heldur annarra vaxta líka. Það er því ekki með nokkru móti hægt að sýna fram á hvernig við eigum að verða okkur úti um þennan gjaldeyri. Það hafa verið skrifaðar heilu greinargerðirnar um þetta, m.a. frá IFS-greiningu, og dr. Sigurður Hannesson hefur skilað greinargerð til fjárlaganefndar þar sem þetta er útlistað mjög nákvæmlega.

38. Það atriði lýtur að því hvaða áhrif þessi gjaldeyrisskortur hefur því að ef ríkið og Landsbankinn reyna að taka til sín allan lausan gjaldeyri hefur það áhrif á allt samfélagið. Ég er búinn að nefna áhrif á gengi krónunnar og áhrif á gengið hefur augljóslega gríðarlega mikil áhrif fyrir nánast öll fyrirtæki í landinu. Þau eru skuldsett í erlendri mynt og fjöldi heimila situr þá uppi með háar skuldir.

En áhrifin verða líka veruleg t.d. bara á viðskipti við aðrar þjóðir vegna þess að það má svo litlu skeika þegar einn aðili sankar að sér öllum gjaldeyri. Það má ekkert út af bera til að gjaldmiðillinn hrynji jafnvel eða að það verði hreinlega skortur á gjaldeyri til að kaupa nauðsynjavörur að utan. Það gerðist til að mynda í Austur-Þýskalandi sem var með fjármálakerfi sem er að verða dálítið líkt því íslenska eftir því sem gjaldeyrishöft eru hert og stefna sósíalistastjórnarinnar í efnahagsmálum festist betur í sessi. Þar gerðist það árið 1976 að uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu olli kreppu í Austur-Þýskalandi. Hvernig má það vera? Ástæðan var sú að Austur-Þjóðverjar drukku býsna mikið kaffi eins og Íslendingar og þeir voru alltaf í vandræðum með gjaldeyri því að ríkið þurfti að skrapa saman öllum þeim gjaldeyri sem það náði í til að standa undir erlendum lántökum. Lánin höfðu verið tekin til að reyna að keppa við Vesturlönd í tækniþróun m.a. svo ríkið tók til sín allan gjaldeyri. Síðan var ákveðnum upphæðum varið í kaffi. En þegar heimsmarkaðsverðið á kaffi hækkaði skyndilega vegna uppskerubrests í Brasilíu var ekkert aflögu, það var ekki til gjaldeyrir til að standa undir kaffiinnflutningnum og það olli keðjuverkun þannig að gjaldeyrisskortur varð viðvarandi alls staðar. Menn höfðu ekki lengur efni á helstu nauðsynjavörum og Austur-Þýskaland fór í þriggja ára efnahagskreppu vegna þess eins að það varð uppskerubrestur á kaffi í Brasilíu. Svona er keðjuverkunin af því þegar menn hafa svona naumt bil, þegar ekkert má út af bregða vegna þess að allur gjaldeyrir rennur á einn stað.

39. Það er þessi endalausi spuni ríkisstjórnarinnar. Af hverju er hann sérstakt áhyggjuefni í þessu máli, því að nú er það ekkert nýtt að þessi ríkisstjórn beitir spuna í nánast öllum málum? Það er sérstakt áhyggjuefni í þessu máli vegna þess að það er ákaflega óheiðarlegt að blekkja þjóðina í máli sem er þess eðlis að það mun skerða lífskjör Íslendinga hugsanlega um kynslóðir. Þess vegna er það sérstaklega óheiðarlegt þegar vinir og vandamenn ríkisstjórnarinnar, eins og gerst hefur aftur og aftur, eru fengnir til að skrifa greinar um málið. Og þannig hefur það verið að nánast öll þau álit eða þær greinar sem stutt hafa málflutning ríkisstjórnarinnar hafa komið frá fólki sem er með bein tengsl við helstu gerendur þessa máls eða er á launum hjá ríkisstjórninni við að verja afstöðu hennar. En þeir hins vegar sem ekki eru á launum hjá ríkisstjórninni eða eru ekki háðir henni eru nánast allir á einu máli um að það sé óforsvaranlegt að fallast á þetta frumvarp. Þannig gerist það enn og aftur að til að mynda lögfræðingar sem ekki hafa verið í vinnu fyrir ríkisstjórnina, hafa ekki verið skuldbundnir í þessu máli að einhverju leyti, skrifa greinar til að vara við því að samþykkja þetta frumvarp, þar á meðal líklega virtasti lagaprófessor Íslands, Sigurður Líndal. Hann útskýrir (Gripið fram í.) að málið brjóti líklega í bága við stjórnarskrá Íslands. En þeir sem eru á framfæri ríkisstjórnarinnar hverju sinni hafa aðra sögu að segja. Það er alvarlegt mál þegar ríkisstjórnin beitir sér með þeim hætti, rétt eins og bankarnir gerðu á sínum tíma, (Forseti hringir.) þeir beittu sér á nákvæmlega sama hátt.