138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[16:09]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við stjórnarandstöðuþingmenn höfum verið sakaðir um að vera í málþófi. Ég hef hafnað því í ræðum mínum að svo sé og hef talið að ég væri að fara málefnalega í málið. Nú var að ljúka fundi þar sem forustumenn stjórnarandstöðuflokkanna listuðu upp hvað það er sem við í stjórnarandstöðunni teljum standa út af. Ég ætla að fara yfir þau 16 atriði sem við teljum að ekki sé búið að varpa nægilega góðu ljósi á. Hér eru m.a. atriði sem hafa komið fram í umræðunni. Það sem við teljum að þurfi að liggja fyrir áður en endanleg ákvörðun verður tekin um þetta mál er:

1. Lögfræðiálit um hvort frumvarpið standist ákvæði stjórnarskrár.

2. Lagt verði mat á hversu miklar fjárhagsskuldbindingar samningarnir fela í sér. Við teljum að það liggi ekki nægilega vel fyrir.

3. Mat á þeirri áhættu að kveða á um skilyrðislausa greiðsluskyldu á vöxtum sem fylgdi því að efnahagslegu fyrirvararnir, sem voru samþykktir í sumar, voru teknir úr sambandi.

4. Mat á fjárhagslegri þýðingu breytinga á efnahagslegum fyrirvörum.

5. Mat á fjárhagslegri þýðingu breytingar á fyrirvara er varðar reglur um úthlutun úr þrotabúi Landsbanka Íslands hf., svonefndu Ragnars Halls-ákvæði.

6. Mat á gengisáhættu samninganna.

7. Mat á fjárhagslegri þýðingu þess að vextir séu samkvæmt samningum fastir við 5,55% en ekki breytilegir. Ég hef rakið það í ræðu og í löngu máli að það getur munað allt að 100 milljörðum hvort vextir á þeim skuldbindingum sem við Íslendingar tökum á okkur séu fastir eða breytilegir. Við viljum að fram fari mat á fjárhagslegri þýðingu þess, annað sé ótækt.

8. Mat á þýðingu nýrra upplýsinga um mat Alþjóðagjaldeyrissjóðsins á greiðsluþoli ríkissjóðs. Það liggur ljóst fyrir að Ísland er orðið gríðarlega skuldsett og ekki liggur fyrir mat á greiðsluþoli ríkissjóðs. Stöðugt bætast við nýjar upplýsingar, nú síðast í gær.

9. Við viljum fá nánari upplýsingar frá fyrrverandi utanríkisráðherra Íslands, Ingibjörgu Sólrúnu Gísladóttur, um hverjar forsendur Brussel-viðmiðanna voru. Hún hefur sjálf lýst því að þau vinnubrögð sem voru ástunduð séu ótæk og að ekki hafi verið farið að Brussel-viðmiðunum.

10. Við viljum fá skýringu á misræmi á túlkun forsætisráðherra Íslands og forsætisráðherra Bretlands á ákvæðum samninganna.

11. Við viljum fá lögfræðiálit sérfræðinga í enskum lögum á texta samninganna.

12. Við viljum fá lögfræðiálit á þýðingu þess að ensk lög gildi um samningana en ekki íslensk, verði látið reyna á ákvæði þeirra fyrir dómstólum.

13. Við viljum fá mat á áhrifum endurskoðunar ESB á löggjöf um innlánstryggingakerfi á skuldbindingar Íslands samkvæmt samningnum, en sú endurskoðun stendur nú yfir.

14. Við viljum fá mat á afleiðingum þess ef frumvarpið verður ekki samþykkt óbreytt eða dráttur verður á samþykkt þess. Hér hefur verið hótað Kúbu norðursins, að við breytumst í Norður-Kóreu og nú síðast hefur frostavetrinum mikla frá 1918 verið spáð ef samningurinn verður ekki samþykktur.

15. Við viljum að þær fundargerðir, skrifleg gögn og frásagnir sem óskað hefur verið eftir á Alþingi af fundum íslenskra ráðherra og erindreka þeirra við erlenda aðila verði birt.

16. Við viljum leggja áherslu á að þau atriði sem ég hef talið upp og falla undir málasvið efnahags- og skattanefndar og eftir atvikum málasvið annarra fastanefnda Alþingis verði send þeim nefndum til efnislegrar meðferðar og umsagnar, um þau leitað hjá viðkomandi nefndum og þau yfirfarin í fjárlaganefnd.

Um þetta snúast kröfur stjórnarandstöðunnar sem stjórnarþingmenn hafa kallað ómálefnalegt málþóf. Svo mörg voru þau orð.

Menn hafa spurt: Hvað er það sem stjórnarandstaðan mundi vilja helst af öllu? Verður ekki að samþykkja þetta? Við segjum nei. Þessi atriði sem ég taldi upp eru þau sem við teljum að þurfi að athuga nánar ef málið fær áfram þinglega meðferð. Það sem við í stjórnarandstöðunni munum gera er að leggja til að frumvarpi fjármálaráðherra verði vísað frá Alþingi til ríkisstjórnarinnar til frekari meðferðar. Stjórnarandstaðan telur rétt eins og fyrrverandi utanríkisráðherra Íslendinga, Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, að ríkisstjórninni beri að taka upp viðræður við Evrópusambandið í þeim tilgangi að það hafi milligöngu um að leiða deilu þjóðanna til lykta á sanngjarnan hátt. Við teljum að Íslendingar hafi haldið það óhönduglega á málunum að sú niðurstaða sem nú liggur fyrir sé algerlega óásættanleg. Ef ekki verður fallist á þetta ber að hafna öllum kröfum um ríkisábyrgð þannig að Bretar og Hollendingar þurfi að sækja kröfur sínar á hendur íslenska ríkinu fyrir íslenskum dómstólum.

Ef frumvarpið fer hins vegar til lokaafgreiðslu og fyrir því verður meiri hluti teljum við í stjórnarandstöðunni að gríðarlega mikilvægt sé að tryggt verði að það verði forseti Íslands en ekki handhafar forsetavaldsins sem taki það til frekari meðferðar samkvæmt ákvæðum stjórnarskrár. Þetta er megininntakið í því sem stjórnarandstaðan vill ná fram. Þessi atriði sem ég hef talið hér upp í löngu máli eru þau atriði sem við teljum að sé ósvarað og þetta er það sem stjórnarþingmenn dirfast að kalla trekk í trekk málþóf og ómálefnalegt tuð.

Eins og öllum má vera ljóst sem hafa hlustað á þetta og séð þessa yfirlýsingu stjórnarandstöðunnar eru þetta málefnalegar ástæður og ljóst er hverju við stjórnarandstöðuþingmenn viljum ná fram. Þetta mál hefur verið unnið með handarbökunum. Þetta mál er eitt stærsta mál sem tekið hefur verið fyrir á Alþingi Íslendinga og ef það fer fram óbreytt þá ógnar það efnahagslegu sjálfstæði þjóðarinnar eins og hefur verið margrakið og Íslendingar eiga heimtingu á því að betur verði farið yfir þessi mál.