138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:00]
Horfa

Frsm. 2. minni hluta fjárln. (Höskuldur Þórhallsson) (F) (andsvar):

Virðulegi forseti. Þetta er einmitt aðalástæðan fyrir því að við í stjórnarandstöðunni sjáum ástæðu til að ræða þetta mál út í hörgul úr ræðustól Alþingis. Málið var ekki rætt í fjárlaganefnd. Við gagnrýndum það harðlega. Við óskuðum eftir því að öll fjögur álitin, sem komu frá efnahags- og viðskiptanefnd, yrðu rædd efnislega og menn mundu móta sér afstöðu í kjölfar þeirrar rökræðu sem ég var að vonast til að yrði. Það var ekki gert. Við sögðum þá: Þið eruð að leika hættulegan leik vegna þess að þið eruð að færa umræðuna, hina efnislegu umræðu, út í þingsal. Það eru nýjar upplýsingar fyrir mig sem sýnir kannski að alltaf eru að koma fram nýjar upplýsingar í þessu máli. Það eru nýjar upplýsingar að þingmenn stjórnarinnar hafi fullyrt í efnahags- og skattanefnd að málið (Forseti hringir.) yrði rætt í fjárlaganefnd.