138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:19]
Horfa

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson (F) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil gjarnan tjá mig um gríðarlegt magn upplýsinga sem komu fram í ræðu hv. þingmanns og í ljósi þess að ég er sá eini sem er með andsvör, má ég biðja hæstv. forseta að veita mér aukatíma í andsvarinu?

(Forseti (ÞBack): Ég bið hv. þingmann að halda áfram sínu andsvari, ekki er gefinn aukatími.)

Við ræðum þetta væntanlega í fundarstjórn forseta, afsakið að ég skuli hafa tekið þetta upp undir röngum lið.

Eins og ég sagði kom mjög margt fram í ræðu hv. þingmanns sem ég mundi vilja tjá mig um. Í fyrsta lagi hlýtur náttúrlega að vera komið nóg af því að menn vísi hver á annan, Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Norðurlöndin, um það að hver hafi á sínum tíma, þeir eru nú reyndar báðir hættir því núna, stoppað lánafyrirgreiðslur til Íslands. Það er með ólíkindum að íslensk stjórnvöld skuli ekki vera búin að fara opinberlega fram á að þetta verði útskýrt. Það er með öllu óskiljanlegt.

Síðan er komin ný frétt, nú koma þær í röðum fréttirnar af fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins og þessi er með stökustu ólíkindum. Þetta er líka af vefmiðlinum Pressunni og þar kemur fram að Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn reikni áætlun sína um afgang Íslands af vöruskiptum, hvernig? Með því að meta hvað við munum þurfa til að greiða af Icesave-skuldunum og út frá því áætla þeir hvað verði í afgang. Þeir snúa sem sagt dæminu við og hugsa sem svo: Íslendingar munu þurfa þessa tugi milljarða í pundum og evrum og þar af leiðandi gerum við ráð fyrir því að næstu árin verði afgangur Íslendinga af vöruskiptum við útlönd þessi, þrátt fyrir að slíkt hafi aldrei gerst í sögu landsins.

Frú forseti. Er ekki hér komið enn eitt dæmið sem sannar að það er engan veginn tímabært að ljúka þessu máli? Raunar væri ákaflega óábyrgt ef Alþingi lyki þessu máli og afgreiddi það á meðan svona óvissa (Forseti hringir.) er ríkjandi um afleiðingar lagasetningarinnar.