138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[17:55]
Horfa

Birgir Ármannsson (S) (andsvar):

Hæstv. forseti. Ég held að þau atriði sem nefnd eru í yfirlýsingu stjórnarandstöðuflokkanna í dag séu öll mjög gild. Þau hafa verið rædd í þessum umræðum og það hafa komið fram ný sjónarmið og nýjar upplýsingar í þessum málum, eins og hv. þm. Guðbjartur Hannesson veit vegna þess að hann hefur fylgst vel með umræðunni. Það hafa komið fram ítarlegar röksemdafærslur fyrir ýmsum þáttum sem þarna eru nefndir, í öðrum tilvikum hefur verið varpað upp spurningum. Og ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur svör við þessum spurningum í pússi sínu getur hann auðvitað dregið þau upp ef málið kemur á dagskrá í fjárlaganefnd. (GuðbH: Búið að svara.)

Ef hv. þingmaður telur að búið sé að svara því ætti ekki að vera mikil nauð fyrir hv. þingmann að benda á það þegar málið kemur á dagskrá fjárlaganefndar vegna þess að það er auðvitað það sem beðið er um í þessu máli, að málin komist á dagskrá. Og ef hv. þm. Guðbjartur Hannesson hefur svörin, getur lagt þau á borðið, er það fínt, þá er það bara afgreitt.

Raunar mætti skjóta því að hv. þm. Guðbjarti Hannessyni að hann hefur ábyggilega margt fram að færa hér í þessari umræðu sem hann gæti komið á framfæri. Ef hann telur að þingmenn séu á villigötum, ætti hann að reyna að beina þeim á réttar brautir.

Varðandi dómstólaleiðina má hv. þm. Guðbjartur Hannesson ekki gleyma því að dómsmál sem höfðað yrði í svona tilviki yrði væntanlega höfðað gegn Tryggingarsjóði innstæðueigenda, geri ég ráð fyrir, sem er einkaréttarlegur aðili með lögheimili í Reykjavík. Ég geri líka ráð fyrir því að ef menn koma með fjárkröfur á hendur íslenska ríkinu geti þeir höfðað mál á varnarþingi íslenska ríkisins sem er í Reykjavík. Auðvitað reyna menn í milliríkjadeilum að ná samkomulagi og auðvitað beita menn sér af fullu afli til að reyna að ná samkomulagi. (Gripið fram í.) Þegar menn eru ekki sáttir við samkomulag sem liggur á borðinu reyna þeir að beita sér betur. (Forseti hringir.)