138. löggjafarþing — 38. fundur,  4. des. 2009.

framhaldsfræðsla.

233. mál
[23:00]
Horfa

mennta- og menningarmálaráðherra (Katrín Jakobsdóttir) (Vg):

Virðulegi forseti. Hér er lagt fram frumvarp til laga um framhaldsfræðslu sem er endurskoðuð útgáfa af frumvarpi sama efnis sem lagt var fram á 136. löggjafarþingi af þáverandi menntamálaráðherra.

Sem stendur eru engin gildandi lög um framhaldsfræðslu í landinu og því má segja að þessari löggjöf sé ætlað að uppfylla ákveðið skarð í löggjöf um menntakerfið, þó að saga fullorðinsfræðslu hér á landi sé vissulega löng og allt frá tímum upplýsingarinnar og er vissulega mjög margbrotin því að hún felst í lestrarfélögum, almenningsbókasöfnum, fræðslufélögum, Ríkisútvarpinu og ýmsum fræðslutímaritum sem hafa gegnt því hlutverki að uppfræða fullorðið fólk á Íslandi um langt skeið.

Aðdragandi þessa frumvarps er hins vegar öllu skemmri og snýr að því að árið 1992 voru sett almenn lög um almenna fullorðinsfræðslu sem voru á verksviði menntamálaráðuneytis. Þau voru felld úr gildi árið 1996 en tekin upp heimild í lögum framhaldsskóla fyrir rekstri öldungadeilda, endurmenntunarnámskeiða og samstarfi framhaldsskóla um fullorðinsfræðslumiðstöðvar. Þar var tekin upp ýmiss konar starfsmenntun og annars konar fullorðinsfræðsla.

Síðan gerðist það að Fræðslumiðstöð atvinnulífsins var stofnuð af ASÍ og SA á grundvelli yfirlýsingar ríkisstjórnarinnar þáverandi frá 13. desember 2001. Hlutverk hennar var að vera samstarfsvettvangur stofnaðila um fullorðinsfræðslu og starfsmenntun í samstarfi við aðrar fræðslustofnanir á vegum aðildarsamtaka ASÍ og SA. Það má segja að út frá þessari miðstöð hafi byggst síðan upp mikið kerfi fullorðinsfræðslu á vegum aðila vinnumarkaðarins og hefur fræðslumiðstöðin verið rekin í samstarfi þessara aðila með fjárstuðningi frá opinberum aðilum. Þar hefur farið fram mikið starf, bæði að skilgreina menntunarfæri fólks á vinnumarkaði með stutta formlega skólagöngu að baki, skipuleggja námsframboð, þróa mat á óformlegu námi og raunfærni og aðferðir í náms- og starfsráðgjöf. Enn fremur hefur fræðslumiðstöðin annast umsýslu vegna úthlutunar fjármuna á grundvelli samnings ríkis og aðila vinnumarkaðarins.

Fræðslumiðstöðin hefur síðan verið í samstarfi við símenntunarmiðstöðvar. Þær voru flestar hverjar stofnaðar á árunum 1998–2000, miðstöð símenntunar á Suðurnesjum, símenntunarmiðstöðin á Vesturlandi, fræðslumiðstöð Vestfjarða, Farskólinn, sem er miðstöð símenntunar á Norðurlandi vestra, símenntunarmiðstöð Eyjafjarðar, þekkingarsetur Þingeyinga, þekkingarnet Austurlands, fræðslunet Suðurlands, Viska, sem er fræðslu- og símenntunarmiðstöð Vestmannaeyja, og Mímir, sem er símenntun í Reykjavík. Forverar margra þessara símenntunarmiðstöðva voru farskólar sem störfuðu áður á framhaldsskólastigi ásamt því að hafa staðið fyrir námskeiðahaldi tengdu tómstundum og atvinnulífi. Það má því segja að með þessu frumvarpi sé verið að setja ákveðinn ramma um starfsemi sem þegar er fyrir hendi og skýra hana betur og skilgreina.

Frumvarp þetta var, eins og ég sagði áðan, fyrst lagt fram á 136. löggjafarþingi. Hins vegar hefur það tekið nokkrum breytingum, m.a. út frá athugasemdum menntamálanefndar eftir 1. umr. sem sú sem hér stendur sat einmitt í og tók þátt í þeirri umræðu. Við samningu þess hefur verið haft mikið og gott samstarf við Alþýðusambandið og Samtök atvinnulífsins en þau hafa auðvitað í fræðslumálum staðið fyrir rekstri fræðslumiðstöðvarinnar. Nýbreytnin er líka sú að fræðslumál opinberra starfsmanna munu færast inn undir hatt fræðslusjóðs og hefur náðst samkomulag um það milli opinberra starfsmanna, aðila vinnumarkaðarins og hins opinbera.

Það eru auðvitað sterk rök fyrir þessu frumvarpi og eins og nefnt er í greinargerð er hér farið yfir tölur frá 2005 sem lúta að menntunarstigi Íslendinga. Það er skýrsla OECD um menntunarstig Íslendinga sem miðast við töluleg gögn frá Hagstofu Íslands. Á árinu 2005 hafði 31% Íslendinga á aldrinum 25–64 ára ekki lokið formlegu námi umfram skyldunám en heildarfjöldi þessa aldurshóps voru 150.400. Það lætur því nærri að 45 þúsund Íslendingar á þessum aldri hafi aðeins lokið grunnskólanámi árið 2005 en 60 þúsund manns hafi lokið framhaldsskóla eða viðbótarnámi og önnur 45 þúsund manns hafi háskólapróf. Þeir sem hafa fjallað um þessi mál telja að hér á landi hafi á sama tíma og fólki hefur fjölgað sem lýkur háskólanámi þeim ekki fjölgað að sama skapi sem halda áfram að loknum grunnskóla, þannig að hér hefur líka skapast ákveðið bil í menntakerfinu. Það skiptir miklu að komið sé til móts við þá sem hafa ekki haldið áfram að loknum grunnskóla með virku framboði á sviði framhaldsfræðslu.

Þeir sem hafa fengist við menntarannsóknir hafa líka talið það mjög mikilvægt framfaraskref að fá þessa löggjöf fram. Það eru margháttuð rök sem mæla með því að framhaldsfræðsla sé samfélagslegt verkefni þó að við munum auðvitað vinna þetta í nánu samstarfi við þá aðila sem hafa staðið fyrir þessu öfluga og mikla framhaldsfræðslustarfi hér á undanförnu árum sem eru aðilar vinnumarkaðarins. Það er um leið mjög mikilvægt að samfélagið taki þátt í þessu og leggi til fjármagn því að fyrir því eru samfélagsleg rök og ég vil nefna fern rök sem Jón Torfi Jónsson, prófessor á menntavísindasviði Háskóla Íslands, hefur lagt fram. Í fyrsta lagi eru það mannauðsrökin og mest fer fyrir þeim í greinargerðinni. Þau snúa að því að efla lífsgæði þeirra sem sækja sér aukna fræðslu og menntun, fullorðinsfræðsla styrkir stöðu fólks á vinnumarkaði og gerir það færanlegra í starfi, því er gert kleift að skipta um vinnu og vinna sig upp og fræðslan eykur líka líkur á nýsköpun í starfi.

Í öðru lagi eru það lýðræðisrökin sem snúast um mikilvægi þess að ávallt sé unnið að því að endurnýja undirstöðuþekkingu almennings eins og t.d. læsi. Við sjáum nú mun víðari skilgreiningar á læsi en áður því að við búum í síbreytilegu þjóðfélagi þar sem skiptir máli ekki aðeins að geta lesið texta heldur vera læs á umhverfi sitt, læs á myndmál, læs á fjölmiðla, læs á tækni, læs á fjármál, svo dæmi tekið sem hefur verið áberandi í umræðunni á undanförnum árum. Þetta eru auðvitað mjög mikilvæg rök fyrir öflugri fullorðinsfræðslu að gera fólki kleift að vera þátttakendur í þessu lýðræðissamfélagi.

Í þriðja lagi eru það jafnræðisrök sem auðvitað skipta líka miklu máli út frá því bili sem við sjáum á menntastiginu hér á landi og skiptir miklu máli að framhaldsfræðslan virki í þá átt að minnka þennan innbyrðis mun á menntunarstigi.

Í fjórða lagi eru síðan svokölluð almenn tæknirök sem snúast um að tryggja almennan tæknilegan grunn allra til að tryggja að fólk geti verið sem hreyfanlegast á vinnumarkaði.

Ég ætla ekki að lesa upp frumvarpið í heild sinni en ég ætla þó að stikla á meginatriðunum, meginmarkmiðunum sem eru talin upp í 2. gr. frumvarpsins:

1. Að veita einstaklingum með stutta skólagöngu að baki aukin tækifæri til virkrar þátttöku í samfélaginu, — og það snýr þá að lýðræðisrökunum sem ég nefndi áðan,

2. að veita einstaklingum á vinnumarkaði með stutta formlega skólagöngu að baki viðeigandi námstækifæri og auðvelda þeim að hefja nám að nýju, — og þar horfum við auðvitað til lífsgæðanna,

3. að gefa einstaklingum færi á að efla starfshæfni sína og efla ábyrgð þeirra í því tilliti,

4. að skapa svigrúm og úrræði til að mæta þörfum atvinnulífsins fyrir aukna þekkingu og hæfni starfsmanna, — og að sjálfsögðu eru það auðvitað líka hagsmunir atvinnulífs að fá betur menntað fólk til starfa og efla þannig menntun starfsfólks,

5. að veita einstaklingum sem búa við skerta möguleika til náms eða atvinnuþátttöku framhaldsfræðslu þar sem tekið er mið af ójafnri stöðu þeirra og hæfni. — Ég vil vekja sérstaka athygli á þessu því að þetta var eitt af því sem var rætt á sínum tíma þegar frumvarpið var lagt fram og er breyting frá því, því að þessi löggjöf skapar ramma utan um alla framhaldsfræðslu og ekki aðeins þeirra sem eru á vinnumarkaði, þarna er í raun og veru vísað til t.d. fullorðinsfræðslu fatlaðra og annarra þeirra sem ekki hafa verið á vinnumarkaði og ekki taka þátt í framhaldsfræðslu í gegnum vinnumarkað heldur í gegnum annars konar kerfi.

6. Að afla viðurkenningar á gildi náms sem fellur utan hins formlega framhaldsskóla- og háskólakerfis. — Þetta snýst um raunfærnimat sem hefur verið mikið kappsmál þeirra sem hafa starfað hér að fullorðins- og framhaldsfræðslu um árabil, þ.e. að meta inn í skólakerfið þá reynslu og það nám sem fram fer utan hins formlega skólakerfis.

7. Að stuðla að því að nám og reynsla sem aflað er utan hins formlega skólakerfis verði metin að verðleikum.

8. Að efla menntunarstig í landinu og íslenskt menntakerfi. — Þar komum við að hinum samfélagslegu rökum að það er allra hagur að þetta kerfi mæti þörfum samfélagsins og efli hið almenna menntunarstig því að það er auðvitað almennur samfélagslegur hagur.

Ég vil að lokum nefna að samvinnan í þessu máli hefur verið mjög góð. Það hefur verið haft, eins og ég sagði áðan, náið samráð við aðila vinnumarkaðarins. Á hinum almenna vinnumarkaði hefur verið haft náið samráð við hinn opinbera vinnumarkað þannig að ég á von á að þar muni nást gott samstarf í framhaldinu um skipulag þessara fræðslumála.

Að síðustu langar mig aðeins að fara yfir það að hér liggur fyrir kostnaðarumsögn frá fjármálaráðuneyti. Þar kemur í raun og veru fram að þessar tillögur taki í meginatriðum mið af því fyrirkomulagi sem hefur þróast hér á landi á síðustu árum og reynst vel. Fjármálaráðuneytið telur að frumvarpið leiði í fyrsta lagi til þess að lögbundnar skyldur ríkisins gagnvart fræðslu fyrir fólk á vinnumarkaði sem hefur stutta formlega skólagöngu aukist, en þó að frumvarpið mæli ekki fyrir um breytingar sem þurfa að hafa í för með sér aukningu á ríkisútgjöldum þá felur það í sér breytta framsetningu og tilfærslu fjárveitinga í fjárlögum. Hér er í raun og veru verið að lögbinda framlög ríkisins sem hafa verið á undanförnum árum, það er verið að styrkja lagarammann í kringum það, en ekki er gert ráð fyrir óvæntum útgjaldaauka í þessu samhengi fyrir utan það sem þegar hefur verið samið um milli stjórnvalda og fræðsluaðila sem sinna framhaldsfræðslu.

Ég legg til, virðulegi forseti, að að lokinni þessari framsögu verði frumvarpinu vísað til hv. menntamálanefndar og hún taki það til frekari vinnslu.