138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:15]
Horfa

Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Gagnrýnismaðurinn, Steingrímur J. Sigfússon, hæstv. fjármálaráðherra, kemur vart hingað upp í ræðustól nema til að gera grín að útliti fólks eða gera athugasemdir. Hann heldur síðan því uppátæki sínu áfram í blöðum. Í morgun segir hann, með leyfi forseta:

„Reynum að koma vitinu fyrir þau.“ — Það stendur á vísi.is. „Auðvitað eru þarna ungir og reynslulitlir menn í forustu og verða að hafa tíma til að sanna sig, en þeir mega þá ekki færast of mikið í fang. Við höfum gert þrjár meiri háttar tilraunir til að koma vitinu fyrir þau.“

Mínar spurningar til formanns Framsóknarflokksins, þessa unga og kjarkmikla manns, vil ég segja, eru þessar: Hver er að koma vitinu fyrir hvern í þessari umræðu? Hvaða tilraunir er nákvæmlega um að ræða sem komu frá ríkisstjórninni? Hvaða tilboð komu þau með í öll þessi skipti sem þau reyndu að semja? Það eru þessar tvær spurningar sem ég vildi fá svar við frá hv. þingmanni.

Þegar maður les svona fréttir, eftir að náðst hefur samkomulag, eru menn að gera sig stærri á kostnað annarra. Það er aldrei mjög stórt, slíkir menn verða bara litlir og á endanum heyrir maður ekki það sem þeir segja.