138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ríkisábyrgð á lántöku Tryggingarsjóðs innstæðueigenda og fjárfesta.

76. mál
[10:25]
Horfa

Unnur Brá Konráðsdóttir (S) (andsvar):

Frú forseti. Ég vil þakka hv. þingmanni fyrir góða ræðu. Þetta er allt jafnskýrt, atriði 42–45 voru síst verri en atriði 27–33 sem ég hlýddi á hér í fyrradag. Gott að hafa málflutning skýran. En ekki er hægt að segja það sama um stjórnarliða, varla er hægt að segja að þeir hafi tekið þátt í þessum umræðum.

Mig langar að spyrja hv. þingmann um atriði í ákvæði 2.1.3 í samningunum, þar sem fram kemur að ríkisstjórnin hefur undirritað samninga þar sem tekið er fram að Alþingi muni taka fyrir frumvarp og afgreiða frumvarp, þar sem kveðið er á um að íslenska ríkið fái heimild án skilyrða og fyrirvara til að taka á sig ábyrgð samkvæmt breyttum lánssamningi — getur verið að þetta ákvæði sé notað á stjórnarliða til að hindra þá í að taka þátt í þessari umræðu hér og til þess að hindra að það fari af stað sú vinna hér í þinginu sem ég tel nauðsynlega og hef talið nauðsynlega í öllu þessu máli, að aðilar úr öllum flokkum setjist niður, fari yfir þetta mál og reyni að laga það eins og við löguðum frumvarp ríkisstjórnarinnar (Forseti hringir.) hér í sumar.