138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[13:27]
Horfa

Bjarni Benediktsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Það á aldrei að vera markmiðið að setja eitthvert tiltekið hlutfall af landsframleiðslu í skatta, alls ekki. Okkar markmið er að veita borgurunum góða þjónustu, búa þeim öflugt velferðarkerfi og tryggja þeim öryggi, skapa fjölskyldunum eftirsóknarvert umhverfi, hafa öflugt heilbrigðis- og menntakerfi og við þurfum síðan að nýta skattstofnana til að gera þetta. Væntanlega eru ekki öll áhrifin af hruninu komin fram. Ég hef áhyggjur af því að þessar reiknuðu tekjur sem ríkisstjórnin kynnir muni ekki alla skila sér. Það er einmitt það sem við sjálfstæðismenn leggjum áherslu á, að það þarf að auka tekjur ríkissjóðs en bara ekki með þessum sköttum. Við viljum efla skattstofnana, fá þá til þess að skila tekjum að nýju til ríkisins og við bendum á fjölmargar leiðir til þess í efnahagstillögum okkar.

Ég get nefnt sem dæmi að við viljum auka veiðar, við viljum auka fjárfestingar í landinu, við viljum koma af stað framkvæmdum við verkefni sem eru tilbúin og bíða á teikniborðinu. Við teljum líka að við eigum að fara séreignarsparnaðarleiðina til að hlífa fyrirtækjum og fjölskyldum í gegnum erfiðasta tímabilið. Við teljum að með því muni ríkið fá að nýju til sín skatttekjur.

Ég tel að okkar helsta vandamál liggi að útgjaldahliðinni. Mér fannst hæstv. fjármálaráðherra vera að snúa út úr áðan þegar hann vísaði í orð fyrri fjármálaráðherra, Árna Mathiesens þegar hann sagði að fyrrverandi ráðherra hefði sagt í viðtali nýlega að aðhaldsstigið hefði ekki verið nægilega hátt. Þar átti fyrrverandi fjármálaráðherra fyrst og fremst við að útgjöldin hefðu aukist um of og okkar vandi næstu árin mundi snúa að því að vinda ofan af þessari útgjaldaaukningu. Verkefnið er ekki að finna leiðir til að hækka skattana fram úr öllu hófi og standa áfram undir óskynsamlegu útgjaldastigi. Við verðum einfaldlega að draga úr útgjöldunum og við þurfum að horfast í augu við það.