138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

ráðstafanir í skattamálum.

239. mál
[15:27]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S) (andsvar):

Virðulegi forseti. Hv. þm. Helgi Hjörvar hefur sér það til afsökunar að hafa verið veikur núna í marga daga þannig að hann hefur greinilega ekki náð að hlusta á ræðu mína þar sem ég fjallaði í mjög löngu og ítarlegu máli um hvernig eftirspurn breytist í þjóðfélaginu við það sem gerðist hérna.

Það sem hefur gerst er að einkaneysla er búin að dragast saman um 25%, sem er of mikið, það er of mikið miðað við það áfall sem við höfum orðið fyrir. Það mátti reikna með því að hún drægist eitthvað saman en þetta er of mikið og þessar aðgerðir munu draga enn meira úr henni. Eftirspurn samanstendur af einkaneyslu, ríkisútgjöldum og fjárfestingum. Allir þessir þrír þættir munu dragast saman enn meira við þetta. Ég vil því orða það svo að það er ekki þannig að draga þurfi úr eftirspurn, það hefur dregið gríðarlega mikið úr eftirspurn og við þurfum að passa okkur á að draga ekki meira úr henni.

Hvað varðar ummæli Görans Perssons er ég sammála honum í því að við hefðum þurft að grípa til miklu róttækari aðgerða fyrr og hlusta á ráð hans en við tökum ekki eitthvað eitt úr því sem hann sagði og segjum: Svona hefðum við átt að bregðast við. Það hefði þurft að bregðast miklu heildstæðar við og fyrr. Það er alveg rétt að maður á að nota, eins og orðað er, maður á aldrei að láta góða kreppu fram hjá sér fara til að koma af stað umbótum. En málið er að þetta snýst ekki um einhverjar grundvallarumbætur sem menn eru sammála um að þurfi að gera. Það ríkir mikið ósamkomulag milli stjórnar og stjórnarandstöðu almennt, held ég, (Forseti hringir.) um hvaða leiðir á að fara þannig að þetta er ekki eitthvað sem er ótvírætt.