138. löggjafarþing — 39. fundur,  5. des. 2009.

greiðsla kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

228. mál
[17:07]
Horfa

Tryggvi Þór Herbertsson (S):

Virðulegi forseti. Við ræðum hér frumvarp til laga um greiðslu kostnaðar við opinbert eftirlit með fjármálastarfsemi.

Helstu athugasemdir sem ég hef við þetta mál eru nákvæmlega þær sömu og hæstv. efnahags- og viðskiptaráðherra kom inn á áðan, þ.e. að fjármálastofnanir sem eru í rekstri núna, nýjar fjármálastofnanir og fjármálastofnanir sem ekki hafa fallið skuli bera kostnað af rannsóknum og eftirliti með fjármálastofnunum sem urðu gjaldþrota í hruninu á síðasta ári. Þetta tel ég vera fullkomlega óeðlilegt, ég hefði talið eðlilegra til að skerða ekki samkeppnisstöðu þessara fyrirtækja gagnvart t.d. erlendum aðilum að slitastjórnir eða þrotabú bankanna beri sjálf kostnað af rannsókn á málum sem tengjast þeim og tengjast hruninu beint.

Sem dæmi um þetta getum við tekið stofnun eins og Lánasjóð sveitarfélaga. Það liggur fyrir að reikningurinn til Lánasjóðs sveitarfélaga margfaldast vegna hrunsins vegna þess að þrotabú bankanna bera ekki sjálf kostnaðinn. Ég mundi vilja beina því til viðskiptanefndar að hún athugi það sérstaklega hverjir eigi að bera kostnað af auknu eftirliti vegna hrunsins en auðvitað munu íslenskar fjármálastofnanir og þeir sem hafa starfsleyfi til að stunda fjármálastarfsemi á Íslandi bera kostnað við eftirlit með þeim sjálfum eða eigið eftirlit. Ég vildi benda hv. viðskiptanefnd á þetta.